Margir Reykvíkingar hafa eflaust litið undrandi á hólminn í Tjörninni fyrstu daga ársins en mátti sjá vinnuvélar vera keyra fram og til baka á ísnum út í hólminn.
Framkvæmdirnar sem eiga sér þar stað munu eflaust gleðja marga borgarbúa en þeim er ætlað að bæta varpland fyrir endur og verða bakkavarnir endurnýjaðar. Ákveðið var að nýta frostið til að fjarlægja á efsta hluta núverandi yfirborðs af hólmanum og flytja efni. Svo mun borgin leggja jarðvegsdúk, möl og jarðveg og verður hluti hólmans þökulagður á ný. Samkvæmt upplýsingum frá borginni er það gert til þess að draga úr sókn hvannar og annarra stórvaxinna tegunda sem draga úr gæðum varplands í hólmanum. Grjótkantur umhverfis hólmann verður sömuleiðis endurhlaðinn til þess að draga úr rofi.
Til þess að ljúka seinasta hluta framkvæmda þarf að bíða þangað til vorar á ný samkvæmt borgaryfirvöldum. Þá verður hægt verður að ganga frá hleðslu umhverfis hólmann og tyrfa yfir valin svæði. Stefnt er á að framkvæmdum ljúki í lok maí.