Vinstri Græn hyggjast slíta ríkisstjórnarsamstarfinu og vilja ganga til kosninga í vor en ályktun þess efnis var samþykkt á landsfundi þeirra nú fyrir skömmu. Tillögunni var breytt í samráði við flutningsfólk hennar áður en hún var samþykkt en nákvæmt orðalag á breytingum liggur ekki fyrir að svo stöddu. Á landsfundinum var Svandís Svavarsdóttir kjörin formaður flokksins og Guðmundur Ingi Guðmundsson varaformaður en fundurinn fer fram í Víkingsheimilinu í Safamýri þar sem íþróttafélagið Fram var eitt sinn til húsa. Nýir meðstjórnendur í stjórn Vinstri grænna eru Aldey Unnar Traustadóttir, Anna Þorsteinsdóttir, Elín Björk Jónasdóttir, Fjölnir Sæmundsson, Jósúa Gabríel Davíðsson, Maarit Kaipainen og Pétur Heimisson. Ekki voru allir vissir fyrir fundinn að tillagan yrði samþykkt en svo kom á daginn.