Vítalía Lazareva hefur gefiið skýrslu hjá lögreglu vegna kæru sinnar á hendur þeim Þórði Má Jóhannessyni, Hreggviði Jónssyni og Ara Edwald.
Lögmenn mannanna þriggja lýstu því yfir við fjölmiðla nýverið að engin kæra hefði verið lögð fram gegn þeim vegna meints kynferðisbrots í sumarbústað í Skorradag í desember árið 2020. Þetta sögðu lögmennirnir í kjölfar þess að mennirnir kærðu þau Vítalíu og Arnar Grant fyrir tilraun til fjárkúgunar. Áður hafði komið fram að Vítalía Lazareva hefði lagt fram kæru á hendur mönnunum en væri ekki búin að fara í skýrslutöku.
Mikið fjaðrafok varð í fjölmiðlum eftir að mennirnir þrír lögðu fram kæru sína og síðar eftir að fullyrt var að engin kæra á hendur þeim vegna kynferðisbrots lægi fyrir. Vítalía lýsti því yfir á Twitter að hún hefði ekki vitað betur en að málið væri í ferli; að hún hefði fyllt út form vegna málsins og farið yfir málavexti, skriflega.
Samkvæmt heimildum gaf Vítalía formlega skýrslu vegna málsins síðastliðinn mánudag.
Vítalía Lazareva kom fram í hlaðvarpsþættinum Eigin konur í janúar síðastliðnum og lýsti þar meðal annars kynferðisofbeldi sem hún sagðist hafa orðið fyrir af höndum þriggja þjóðþekktra, áhrifamanna í samfélaginu, í sumarbústað sem hún var stödd í með þáverandi kærasta sínum, Arnari Grant. Hún nafngreindi mennina ekki í þættinum en hafði þó gert það á Instagram í október á síðasta ári. Málið fór hátt í fjölmiðlum og að endingu stigu þeir Þórður Már Jóhannesson, Hreggviður Jónsson og Ari Edwald allir til hliðar eða hættu í stöðum sínum; Þórður Már sem stjórnarformaður Festar, Hreggviður úr stjórn Veritas og Ari sem framkvæmdastjóri Ísey útflutnings.
Áður hefur komið fram að þöggunarsamningar hafi verið á borðinu í máli Vítalíu og þremenninganna. Þeir voru sagðir hafa viljað ljúka málinu utan dómstóla og greiða Vítalíu ákveðna upphæð fyrir það. Í kæru þeirra á hendur þeim Vítalíu og Arnari Grant kemur fram að þau hafi reynt að knýja fram 150 milljónir vegna málsins. Stundin greindi fyrst frá málinu.
Arnar Grant kom fram í viðtali við RÚV síðastliðinn föstudag og sagðist þar hafna öllum ásökunum mannanna um fjárkúgun. Hann hafði áður sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði kæru mannanna fráleita tilraun til þess að afvegaleiða umræðuna. Hann sagði einnig að um væri að ræða tilraun til þess að draga úr trúverðugleika hans sjálfs sem lykilvitnis í máli Vítalíu.