Kolbrún Garðarsdóttir, lögmaður Vítalíu Lazarevu, staðfesti í dag í samtali við Vísi að ríkissaksóknari hafi staðfest ákvörðun héraðssaksóknara um að fella niður rannsókn á meintri fjárkúgun Vítalíu og Arnars Grant. Í viðtali Vísis segir Kolbrún að Vítalía fagni ákvörðun ríkissaksóknara sem staðfesti það sem hún hafi ávallt haldið fram. Ákvörðunin hafi verið tekin með hliðsjón af því að mennirnir þrír, þeir Ari Edwald, Hreggviður Jónsson og Þórður Már Jóhannesson, hafi átt frumkvæði að því að ljúka umræddu máli með peningagreiðslu.
Rétt er að geta þess að Vítalía greindi fyrst frá því í október árið 2021 að þjóðþekktu mennirnir hefðu brotið á henni kynferðislega í sumarbústað þar sem hún var stödd ásamt ástmanni sínum, Arnari Grant. Með niðurstöðunni er málinu endanlega lokið en rannsókn á hendur Ara, Hreggviði og Þórði er einnig lokið. Mannlíf ræddi við Arnar Grant í kjölfar tíðindanna í dag en vildi hann lítið tjá sig. Aðspurður hvort honum væri létt sagði Arnar: „Nei, ég ætla ekkert að tjá mig um það.“