Laugardagur 21. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Vítalíumálið vefur upp á sig: Forstjórinn malaði gull, fordæmdi kynferðisofbeldi og missti starfið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mikil átök hafa verið að tjaldabaki eftir að Vítalía Lazareva sagði frá áreiti í pottaferð með viðskiptajöfrum í árslok 2020. Tveir pottverjanna, Hreggviður Jónsson og Þórður Már Jóhannesson eru í hópi stærstu eigenda Festi sem rekur meðal annars Krónuna, N1 og Elko. Þórður Már vék úr stjórn Festi og Hreggviður hætti sem stjórnarformaður Veritas vegna ásakananna. Málið hefur nú dregið dilk á eftir sér. 

Það vakti athygli í vikunni þegar Eggert Kristófersson, forstjóri hjá Festi, sendi tilkynningu til Kauphallar Íslands um að hann hafi ákveðið að láta af störfum. Tilkynningin kom fjárfestum í opna skjöldu og lækkaði hlutabréfaverð fyrirtækisins um 3,7 prósent í viðskiptum gærdagsins. Í forstjóratíð Eggerts hefur Festi og fyrirtæki samstæðunnar skilað vænum hagnaði. Ávöxtun hluthafa hefur verið með því hæsta sem sést hefur á Íslandi frá fjármálahruni. Þykir Eggert hafa verið einstaklega farsæll í starfi og vel liðinn innan fyrirtækisins. Síðastliðna 12 mánuði hafa hlutabréf í Festi hækkað um tæp 11 prósent og frá skráningu fyrirtækisins á hlutabréfamarkað hefur gengi bréfa í Festi og forvera þess hækkað um 865 prósent.

„Fordæmir allt ofbeldi og kynferðisbrot“

Tilkynningin bar þess merki að Eggert sjálfur hefði skyndilega ákveðið að láta af störfum. Heimildir Mannlífs herma að svo var ekki. Eggerti var sagt upp störfum og honum tjáð að stjórn fyrirtækisins vildi „breyta til“, samkvæmt heimildum Mannlífs. Heimildir herma að það hafi meðal annars verið fyrir tilstilli hluthafanna Þórðar Más og Hreggviðs að forstjórinn var látinn fjúka. Þórður Már neyddist til að segja sig úr stjórn Festis og Hreggviður hætti sömuleiðis í stjórn Veritas eftir að fjölmiðlar upplýstu um meinta ósæmilega hegðun þeirra gagnvart Vítalíu Lazareva í sumarbústaðarferðinni frægu. Vítalía greindi frá því í mars að hún hefði kært tvímenningana ásamt Ara Edwald til lögreglu vegna málsins. 

Í ágúst 2021 steig Eggert fram og gagnrýndi forystu KSÍ vegna meintra kynferðisbrota sem þá voru til umfjöllunar. Festi hefur verið einn af stærstu bakhjörlum sambandsins. Í samtali við mbl.is sagði Eggert: 

„Við hjá Festi samstæðunni […] fordæmum allt ofbeldi, og kynferðisbrot er eitthvað sem við líðum alls ekki. Mikilvægt er að tekið sé á slíkum málum af fagmennsku með hagsmuni brotaþola að leiðarljósi.“

Heimildarmenn Mannlífs segja þá Þórð og Hreggvið vart hafa rætt við Eggert frá því meint kynferðisbrotamál þeirra kom upp í fjölmiðlum. Þeim deilum hafi lokið í vikunni, þegar Eggert hætti störfum.  

- Auglýsing -

Nýr forstjóri kynntur á næstu tveimur vikum

Í tilkynningu segir að Eggert hætti störfum þann 1. ágúst næstkomandi. Þar seg­ir að Festi standi nú á tíma­mót­um eft­ir mikla upp­bygg­ingu und­an­far­inna ára og að Eggert telji að nú sé æski­legt að leitað verði til nýs ein­stak­lings til að leiða starf­semi þess.  Samkvæmt heimildum Mannlífs hófst leit að nýjum forstjóra í vikunni. Ýmis nöfn hafa verið nefnd og heimildir herma að nýr forstjóri verði kynntur til sögunnar á næstu tveimur vikum. Telja heimildarmenn að stjórn hafi nú þegar augastað á konu í forstjórastólinn. Ef af þeirri ráðningu verður má ætla að það yrði hæstlaunaðasta kona í sögu Kauphallar Íslands ef hún nyti sömu launakjara og Eggert.   

Laun Eggerts á árinu 2020 voru um 73 milljónir króna og heimildir Mannlífs herma að ráðningasamningur Eggerts tryggi honum ein árslaun hið minnsta. Líklegt má þó telja að stjórn fyrirtækisins hafi kosið að gera enn betur við forstjórann farsæla sem malað hefur gull fyrir hluthafa sína, gegn því að hann tjái sig ekki um starfslokin.

- Auglýsing -

Mannlíf heyrði í Eggerti og spurði hann hvort satt væri að hann hafi í raun verið látinn hætta hjá Festi. „Ég held að þetta sé algjörlega úti á túni, því miður.“

Ekki náðist í þá Hreggvið og Þórð við gerð fréttarinnar.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -