Völvublað Mannlífs er komið út. Í blaðinu má lesa spá völvunnar um komandi ár, baksýnisspegil aftur úr forneskju, yfirreið um menningu og listir og sjá hver bar sigur úr býtum í vali lesenda á Hetju ársins 2021 og margt fleira.
Til að lesa spá Völvunnar í heild sinni er hægt að lesa blaðið hér.
Metoo
„Hreinsunareldur Metoo-byltingarinnar heldur áfram. Konur opna sig á öllum sviðum samfélagsins og fjalla um ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir á vinnuvettvangi og annars staðar. Þessu er hvergi nærri lokið. Ég sé umræðu um kvenfyrirlitningu í bönkum landsins, sem og í Seðlabanka Íslands. Ég sé ekkert bakslag hvað þetta varðar – heldur er bara verið að snúa risastóru olíuskipi. Það er þungt og tekur tíma.
Öflugar femínistahreyfingar munu halda áfram sínu striki í baráttunni gegn ofbeldi.
Umræðan verður þó áfram mjög pólaríseruð. Við erum smátt og smátt að læra að lifa í nýjum heimi og förum að verða meira tilbúin í að eiga erfið og flókin samtöl. Við erum að átta okkur á því hvernig samfélag við viljum byggja. Við erum líka að læra að við viljum byggja þetta nýja samfélag saman en ekki sundruð. Á þessu ári förum við að tala meira um það hvað við eigum að gera næst; hvert næsta skref verður. Til dæmis hvað við eigum að gera við gerendur.
Á þessu ári verður háværari umræða um betrunarstefnu, fangavist og sáttameðferðir.
Af Knattspyrnusambandi Íslands er það að segja að á árinu mun fara fram mjög nauðsynleg og opinská umræða um kynferðisafbrot. Þær upplýsingar sem við höfum fengið síðastliðið ár hafa verið mörgum áfall. Nú er að vinna úr því. Ég sé það fyrir að einhverjir knattspyrnumenn muni stíga fram og játa brot sín. Það mun ýta umræðunni áfram, þar sem ákveðnir gerendur taka þátt og vilja bera ábyrgð á sínu. Ég sé þó fyrir mér að það séu ákveðnir einstaklingar sem halda áfram að fara í vörn og vilja ekkert viðurkenna. Þarna er ég að tala um einstaklinga sem ég sé að hafa ekki alveg hreina samvisku. Þeir munu halda áfram að klóra í bakkann en það mun ekki gefa þeim neina hugarró. Við þurfum alltaf að mæta samvisku okkar að lokum.
Ég sé þó nýja kynslóð knattspyrnumanna sem eru mun meira tilbúnir í þessa umræðu alla og umbætur en forverarnir. Framtíðin er björt. Þeir ungu drengir sem ég sé innan knattspyrnuhreyfingarinnar munu láta að sér kveða og sýna að dropinn er sannarlega að hola steininn.
Af Gylfa Þór Sigurðssyni er það að segja að hann mun að endingu sleppa fyrir horn í því máli sem nú er verið að rannsaka. Annaðhvort verður hann ekki ákærður og málið látið falla niður, eða þá að hann verður að endingu sýknaður. Hvort sem verður, sé ég að hann verður hólpinn gagnvart dómsvaldinu. Hann hefur þó beðið varanlega álitshnekki og orðspor hans er verulega laskað.
Jón Baldvin Hannibalsson mun hvergi bakka í sínum málflutningi. Hann mun ekki gangast við þeim sökum sem á hann hafa verið bornar, en konurnar standa eftir sem áður með sínum sögum. Mér sýnist Jón Baldvin hugsanlega fara enn lengra inn í þann hugsunarhátt að hann sé fórnarlamb í þessum aðstæðum og umræðunni sem á sér stað. Í það minnsta mun hann tjá það meira út á við. Hann mun líklega skrifa meira af pistlum og greinum, það er eins og hann verði óheflaður og á útopnu.
Hann hefur mikla þörf fyrir að gefa fólki það sem hann telur vera rétta mynd af sér og sínum afrekum. Honum er mjög annt um almenningsálit, en telur sig geta beygt það og stjórnað því. Hann vill fá að skrifa söguna sjálfur og mun gera það í meira mæli.
Jón Baldvin vill skilja meira eftir sig undir það síðasta sem hann telur marka spor hans í stjórnmálum í gegnum tíðina. Mér sýnist að á þessu ári skrifi hann ef til vill skýrslu er varðar kvótakerfið.
Mér sýnist Ingólfur Þórarinsson, eða Ingó veðurguð, ekki sýna auðmýkt eða gefa möguleika á einhvers konar samtali. Það er eins og hann eigi eftir að fara enn lengra í hina áttina á þessu ári. Mér sýnist verða töluverð neysla og djamm á honum. Hann er í afneitun gagnvart þeim ásökunum sem á honum hafa dunið og er ekki tilbúinn til þess að fara ofan í saumana á þeim eða skoða sjálfan sig gagnrýnum augum. Hann lítur á sig sem fórnarlamb í þessu öllu saman.
Það eru þó tvær hliðar á peningnum. Ingólfur er á leið inn í þannig tímabil í lífinu að ef honum tekst að sýna æðruleysi gæti það hugsanlega gjörbreytt lífi hans og veitt honum aukna hamingju. Hann gæti komist í tengingu við einhvers konar æðri mátt og fundið sig betur í framhaldinu. Þetta er ákveðið fíkniþema – hann þarf að fylla holuna með einhverju.
Þetta gerist ekki á þessu ári, en gæti gerst síðar ef hann sleppir takinu og sýnir auðmýkt.
Sölvi Tryggvason verður frekar óútreiknanlegur á þessu ári. Það er einhvers konar miðlífskrísa í kortunum hjá honum. Það er eins og hann muni hugsanlega mála sig meira út í horn. Hann verður mikið gagnrýndur, því hann virðist ekki vera tilbúinn í samtalið og vill ekki taka ábyrgð á neinu. Honum mun áfram finnast erfitt að líta í eigin barm.
Hann er hræddur við að eldast og mér sýnist verða dálítið skemmtanalíf á honum. Hann er líklegur til þess að slá hlutunum upp í kæruleysi og gefa skít í allt.
Það mun þó verða ákveðið augnablik þar sem hann mun koma fram af heiðarleika og segja frá einhverju mjög persónulegu sem hefur að gera með málefni innan dyra svefnherbergisins.
Tónlistarmaðurinn Auðunn Lúthersson, eða Auður, hefur látið lítið fyrir sér fara undanfarið eftir þær ásakanir sem komu fram á hendur honum. Mér finnst eins og hann muni eitthvað tjá sig á nýju ári. Mér sýnist að hann muni koma fram og biðjast fyrirgefningar. Hann mun opna sig og fara inn í umræðuna. Hann viðurkennir hreinskilnislega það sem hann hefur gerst sekur um og talar sömuleiðis um neyslu og skaðleg áhrif hennar. Hann fær ákveðið bakslag en tekur ágætlega á móti því. Seinni part ársins munum við sjá örlítið meira af honum, en með nýjum hætti. Hann mun í auknum mæli vinna í lagasmíðateymum erlendis – meira á bak við tjöldin.
Fleiri mál munu líta dagsins ljós vegna Megasar. Umræðan opnast og konur sem segja hann hafa meitt sig í áranna rás stíga fram. Hann mun ekki svara fyrir þessar ásakanir. Megas verður að endingu tekinn af heiðurslaunum listamanna.
Baráttukonan Edda Falak hefur látið mikið til sín taka í Metoo-umræðunni á þessu ári. Árið 2022 gæti orðið dálítið flókið fyrir hana; það eru miklar umbreytingar að eiga sér stað innra með henni. Hún verður að vissu leyti nokkuð landamæralaus; hún veit ekki alveg hvar hún byrjar og endar. Hlutir fara að hafa meiri áhrif á hana sálrænt og hún mun taka hlutum persónulega í auknum mæli. Hún gæti farið að upplifa sig svolítið sem fórnarlamb og finnast allir vera að ráðast á sig. Til þess að finna einhverja ró gæti hún fundið upp á því að fara meira út að skemmta sér, en það mun bara gera hana þreytta með tímanum. Hún gæti hugsanlega lent í einhvers konar kulnun.
Kosturinn við þetta tímabil er að upp úr kulnun eða örmögnun gæti hún fundið sálarró. Hún fer að finna fyrir egódrepandi áhrifum og verður miklu næmari á tilfinningar fólksins í kringum sig. Hún mun hitta einhvern og upplifa tengingu við viðkomandi sem hún hefur aldrei komist nálægt áður. Þetta er eins og einhvers konar sálufélagatenging.
Edda mun koma til baka úr þessu tímabili öflugri en áður og mun geta látið margt gott af sér leiða í framhaldinu. Rétt er að nefna að þetta tímabil tekur í kringum tvö ár í heildina.
Sólborg Guðbrandsdóttir baráttukona mun á komandi ári finna nýjar hliðar á sér og fara út fyrir kassann. Hún gæti lent í því að fara örlítið fram úr sér, því þetta er afar byltingarkennd og róttæk orka sem mun umlykja hana á árinu. Orkan er innblásin og rafmögnuð og mun veita öðrum kraft.
Sólborg mun koma með sterka vinkla í samfélagsumræðuna svo eftir verður tekið og setja hluti í samhengi sem mun fara vel í almenning. Hún verður mjög áberandi þar sem hún kemur sér fyrir og verður meiri upphafskona, sem setur af stað strauma og stefnur. Hún mun tala fyrir framtíðinni og koma fram með nýja og ferska vinkla.“