Þriðjudagur 24. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Völvan 2022: Ný kvikmynd Bjarkar floppar, Emmsjé Gauti einlægur í lukkuálögum og Bubbi vill sameina

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Völvublað Mannlífs er komið út. Til þess að lesa spá völvunnar um komandi ár í heild sinni er hægt að nálgast blaðið hér.

Tónlist

 

Bubbi Morthens er samofinn þjóðarsál okkar Íslendinga. Hann heldur sínu striki á árinu og talar fyrir samtali og einingu. Hann vill vita hvernig við ætlum að halda áfram með Metoo-verkefnið. Fólki líkar ekki alltaf það sem hann segir og gerir, en hann verður brú á milli andstæðra póla á næstu misserum, eins konar sáttasemjari.

Einn af hæfileikum Bubba er að hann getur talað við báðar hliðar og sameinað fólk, ef fólkið er tilbúið í það. Hann er reiðubúinn til að tjá sig og taka gagnrýninni sem kemur óumflýjanlega. Bubbi talar fyrir því sem honum finnst vera sannleikurinn – hann festir sig ekki í pólitískri rétthugsun, heldur talar út frá því sem hann trúir. Hann bendir á keisarann þegar hann er nakinn og talar inn í það sem er í deiglunni.

Tónlistarkonan Guðrún Ýr Eyfjörð, eða GDRN, er sannarlega búin að marka spor sín í tónlistarbransanum og er nú að uppskera eftir miklar breytingar síðustu ár. Hún er ekki upptekin af sjálfri sér eða sviðsljósinu. Athyglin sem hún fær fylgir dugnaði hennar, hæfileikum og vinnusemi. Hún mun hljóta miklar viðurkenningar á árinu og er stödd á tímabili mikillar uppskeru sem hún má sannarlega njóta. Ég sé líka að hún mun fást við leiklist í auknum mæli. Slíkt verkefni mun koma í fangið á henni á þessu ári og hún ætti að taka því opnum örmum, því þetta er lukkutími.

Bríet mun halda áfram á sömu braut og ekkert lát mun verða á velgengni hennar. Hún er komin til að vera og þetta er hennar vettvangur – að vera poppstjarna. Hún mun áfram fara varlega í að tjá sig um stjórnmál og slíkt; hún velur heldur að standa utan við þá umræðu opinberlega.

- Auglýsing -

Bríet og Rubin Pollock, gítarleikari í hljómsveitinni Kaleo, munu halda sínu sambandi áfram. Þau munu ganga í gegnum örlítið erfitt tímabil á árinu og þurfa að hugsa sig um og átta sig á því hvert þau stefna sem par – en ástin sigrar að lokum.

Valdimar Guðmundsson er að upplifa sterka umbreytingarorku. Hann er með ákveðna þörf fyrir að breyta um stefnu og marka sér ný spor, bæði út á við og inn á við. Hann er nýorðinn pabbi í fyrsta sinn og mun farnast vel í því hlutverki. Líf hans er fullt af ást þessi misserin. Hann mun finna fyrir því hvernig nýja hlutverkið er að breyta honum til frambúðar og það mun síðan hafa töluvert mikil áhrif á sköpun hans og því hver næstu skref hans verða í listinni. Það er eins og hann finni nýjan innblástur og ég spái því að hann muni semja mikið af nýju efni á næstunni sem muni fá virkilega góðar undirtektir. Þetta er tími þar sem hann getur hrist af sér allt það sem heldur aftur af honum og skorið böndin við fólk sem hefur ekki góð áhrif á hann. Hann gæti lent upp á kant við fólk og rifist við vini og samstarfsfólk, því það er mikill sprengikraftur í gangi innra með honum og það getur reynst honum erfitt að halda aftur af sér og temja skapið.

Þetta er sannarlega góður tími til að ná hinum ýmsu markmiðum. Valdimar gæti upplifað dálitla hvatvísi á komandi mánuðum og þarf aðeins að vera meðvitaður um það – betra er að horfa fram á veginn og á langtímamarkmið. Eftir þann umbreytingartíma sem nú er í gangi mun Valdimar að endingu upplifa sátt og að hann sitji betur í sjálfum sér og þekki sjálfan sig betur.

- Auglýsing -

Jóhanna Guðrún Jónsdóttir söngkona er að koma út úr miklu breytinga- og umrótstímabili, en nú fer öldurnar að lægja. Hún finnur að hún er þar sem hún vill vera og er hamingjusöm. Henni finnst hún vera búin að vaxa mikið og komast nær kjarna sínum. Hún situr betur í sér núna en áður og fjölgun á nýju ári mun veita mikla hamingju. Ástin blómstrar og hún upplifir miklu minni þörf fyrir að stjórna umhverfi sínu. Hún upplifir sig örugga og rólega og finnst hún vera í betra flæði. Hún getur núna sleppt takinu og látið sig fljóta. Það er því mikið gæða- og hamingjuár í vændum hjá Jóhönnu Guðrúnu og hún mun gefa út meiri tónlist sem hún er virkilega ánægð með.

Magnús Eiríksson, tónlistarmaður og lagasmiður, sem á stóran sess í hjörtum þjóðarinnar, hlýtur loksins heiðurslaun listamanna á árinu og er eins vel að þeim kominn og hugsast getur. Hann tekur á móti þeim auðmjúkur og af hógværð, eins og honum einum er lagið.

Björk Guðmundsdóttir leikur í nýju kvikmyndinni The Northman, sem kemur út árið 2022 og er beðið með mikilli eftirvæntingu. Myndin mun því miður ekki ganga nógu vel – en það skiptir engu máli því ástfangna Björk er að hnoða saman plötu sem mun fara á lista yfir áhrifamestu plötur 3. áratugar 20. aldarinnar.

Gauti Þeyr Másson, eða Emmsjé Gauti eins og hann er jafnan kallaður, mun eiga gott ár. Mér finnst vera heppni í kortunum hjá honum sem þýðir að það sem hann ákveður að taka sér fyrir hendur verður með ákveðin lukkuálög yfir sér. Mér sýnist að það muni koma töluvert af nýrri tónlist frá honum á árinu. Hann mun syngja meira og vera einlægur. Það leggst vel í áheyrendur og nýja tónlistin hans mun fá mikla hlustun.

Reykjavíkurdætur fá loksins verðskuldaða athygli og viðurkenningu hér heima eftir þrusutónleika sem þær halda á árinu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -