Elín Hirst gaf út bók um afa sinn.
Fjölmiðladrottningin Elín Hirst gaf út nú fyrir stuttu glæsilega bók og fjallar hún um afa Elínar en hann var maður að nafni Karl Hirst. Karl bjó á Íslandi í síðari heimstyrjöldinni og var þýskur. Slíkt sættu Bretar, sem hernámu Ísland, sig ekki við og handtóku þeirra alla Þjóðverja á landinu og sendu í fangabúðir í Englandi. Skipti engu máli hvort að þýsku einstaklingarnir studdu Hitler eða ekki.
Þann 5. júlí árið 1940 ruddust breskir hermenn inn á heimili afa og ömmu Elínar. Afi hennar, Karl Hirst, var farinn til vinnu en amma hennar og synir þeirra
tveir, tæplega tveggja og fimm ára, vildu lúra aðeins lengur. Skyndilega ruddust
menn inn í íbúðina og alla leið inn í svefnherbergi: „Þetta voru þrír breskir hermenn
vopnaðir rifflum með byssustingjum sem þeir beindu að ömmu, pabba og litla bróður
hans af stuttu færi,“ segir Elín Hirst í bók sinni. „Amma hrópaði upp af skelfingu og
drengjum var illa brugðið og fóru báðir ða gráta. Hermennirnir spurðu skipandi röddu
hvort Þjóðverjinn Karl Hirst byggi hér. Þeir yrðu að tala við hann undir eins. Ömmu
var ekki fisjað saman og hún var fljót að ná valdi á aðstæðu,“ segir Elín. „Hún reyndi
að róa drengina, vatt sér fram úr rúminu á náttkjólum og skipaði hermönnunum að
koma sér samstundis út úr svefnherberginu. Þeim brá við og hlýddu strax.“
Í bókinni lýsir hún því áfalli sem þessi atburður var. Í kjölfarið var Karl Hirst sendur í
fangabúðir Breta á eyjunni Mön þar sem hann var í fimm ár – og að því búnu tók við
tveggja ára nauðungarvist í Þýskalandi sem íslensk stjórnvöld neituðu að hleypa
honum aftur heim.
Í bók sinni segir Elín Hirst síðan: „Í ársbyrjun 2023 fannst mér kominn tími til að
skoða þetta mál betur. Ég hafði samband við Þjóðskjalasafn Íslands og bað um öll
skjöl sem vörðuðu Karl H. Hirst frá þessum tíma. Ekki leið á löngu þar til ég fékk
sendan fjölda skjala sem vörðuðu fjölskyldu mína. Í skjölunum er meðal annars að
finna minnisblöð ríkisstjórnarinnar, sum merkt trúnaðarmál, bréfaskipti milli
dómsmálaráðherra og utanríkisráðuneytisins, bréf frá yfirmanni herstjórnar
Bandaríkjahers á Íslandi til íslenskra yfirvalda og bréf frá breskum stjórnvöldum, bréf
frá ömmu til utanríkisráðuneytisins, símskeyti og margt fleira sem varðaði mál afa.
Þegar ég opnaði tölvupóstinn með skjölunum gat ég ekki hætt að lesa.“
Eftir sjö ára aðskilnað fékk Karl loks að snúa aftur til Íslands en þá var hann breyttur
maður og lýsir Elín því í bók sinni hvernig þessir miklu atburðir lituðu líf fjölskylduna
næstu ár og áratugi en hún segir á einum stað: „Ég held að þau hafi öll fjögur, afi,
amma og synir þeirra tveir, þjáðst af því sem nú er kallað áfallastreituröskun.“