Það er fátt sem gleður marga jafn mikið og litskrúðug blóm en þau eru talsvert algengari á vorin og sumrin en í janúar á Íslandi. Það er hins vegar komið vor í gróðurhúsinu á Lækjartorgi en óhætt er að segja að húsið hafi vakið mikla lukku Reykvíkinga síðan því var komið fyrir á torginu góða.
„Við áttum þessi blóm sem við höfðum áður notað í krans í gróðurhúsinu en langaði að gera eitthvað annað með þau núna,“ segir Arna Kristjánsdóttir, starfsmaður garðyrkjunnar, á vef borgarinnar. „Við sáum sniðuga skúlptúra úr vírneti, sem eru gegnsæir og virka eins og draugar. Okkur datt í hug að það væri hægt að gera svona blómakjól utan á vírnetið. Byrjuðum bara á þessu og smám saman fæddist þessi kjóll,“ hélt hún áfram.
„Krökkum finnst líka gaman að skoða þetta, þetta er svolítið ævintýralegt. Maður getur líka farið að leyfa sér að hlakka til vorsins,“ sagði Anna að lokum en opið er í gróðurhúsinu frá 8 til 15 á virkum dögum en auðvitað er hægt að kíkja inn um glugga þess á öllum tímum.