Það sem af er degi hafa rúmlega fimmtíu útköll borist björgunarsveitum. Þessu er greint frá á Vísi.
Óveðrið sem nú geisar um landið hefur varla farið fram hjá landsmönnum en víða eru appelsínugular og gular viðvaranir í gildi og varað við ferðalögum.
Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, greindi frá því í viðtali við Vísi að morguninn hefði farið rólega af stað en tilkynningar tekið að hrannast inn eftir hádegið.
Davíð segir að útköllin séu mörg á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Hann segir að björgunarsveitirnar hafi þurft að manna lokunarpósta víða. Einnig hafi borist fjöldi tilkynninga frá Mosfellsheiði, Borgarnesi og Holtavörðuheiði, vegna fastra bíla.
„Það eru um tíu bílar fastir á Mosfellsheiði og svo barst tilkynning um rútu með sjö manns um borð sem var föst í Borgarfirði.“
Davíð minnir landsmenn á að moka frá niðurföllum sínum vegna mikillar úrkomu og leysinga.
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er nú búið að loka Reykjanesbrautinni og Grindavíkurvegi, sem og Hellisheiði, Þrengslum, Sandskeiði, Mosfellsheiði og Kjalarnesi.