Töluvert tjón varð í nótt þegar eldur kviknaði í eggjabúinu Nesbúi í Vogum á Vatnsleysuströnd. Minnsta kosti sex þúsund hænsnaflugar drápust af völdum elds og reyks.
Samkvæmt RÚV barst tilkynning um eldsvoða í eggjabúinu Nesbúi í Vogum á Vatnsleysuströnd, um miðnæturbil. Var allt tiltækt slökkvilið Brunavarna Suðurneskja kallað út auk tankbíls frá Slökkviliði Grindavíkur.
Þegar slökkvilið kom á vettvang logaði talsverður eldur í þaki einnar skemmu búsins, sem er eitt það stærsta á landinu. Ein skemma er ónýt eftir brunann að sögn varðstjóra hjá Brunavörnum en slökkviliðinu tókst koma í veg fyrir að eldurinn næði að breiðast frekar út. Önnur hús eru því óskemmd. Fólki stafaði engin hætta í brunanum en eins og áður segir er talið að yfir sex þúsund hænsnafuglar hafi drepist af völdum elds og reyks.
Nesbúið verður vaktað fram eftir morgni svo hægt sé að bregðast fljótt við ef eldur blossar upp aftur. Segir varðstjórinn í samtali við RÚV að betur verður hægt að átta sig á stöðunni þegar birtir. Segir hann óvíst um eldsupptök en að lögreglan muni rannsaka þau.
Þegar mest var voru um 20 slökkviliðsmenn við störf á vettvangi.