Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.8 C
Reykjavik

Yfirlýsing vegna Lindarhvols og birtingu skýrslu setts ríkisendurskoðanda

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Íslandsdeild Transparency International samþykkti í gærkvöldi ályktun vegna Lindarhvols og birtingu skýrslu setts ríkisendurskoðanda. Lesa ámá ályktunina hér að neðan.

Stjórn Íslandsdeildar Transparency International þakkar Sigurður Þórðarsyni, settum ríkisendurskoðanda, fyrir heiðarleika og eljusemi í störfum sínum í Lindarhvolsmálinu í þágu gagnsæis og hagsmuna almennings. Þá vill stjórn sömuleiðis þakka Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingkonu Pírata, fyrir birtingu skjalsins sem stjórnarliðar hafa árum saman falið fyrir almenningi þrátt fyrir óhaggandi rétt hans til upplýsinga um hvernig farið er með hagsmuni samfélagsins.

Skýrsla setts ríkisendurskoðanda, sem nú hefur verið birt, afhjúpar tilraunir stjórnvalda og stjórnkerfisins til að draga úr gagnsæi við meðferð opinberra eigna þrátt fyrir endurteknar yfirlýsingar um hið gagntæða og skýrar starfs- og siðareglur Lindarhvols í 134 liðum sem kveða á um hlutlægni, gagnsæi, jafnræði og heiðarleg vinnubrögð. Skýrsla Sigurðar bendir á áleitnar spurningar sem ekki hafa fengist svör við sökum kerfisbundinnar yfirhylmingar.

Við lestur skýrslu Sigurðar skal haft í huga að hún er saga yfirhylmingar skrifuð af manni sem fjarlægður var frá verkinu eftir baráttu um aðgang að gögnum og upplýsingum svo standa megi vörð um almannahag. Skýrslan er lýsing á því hvernig gangverk leyndar gegnumsýrir ferlið þrátt fyrir yfirlýsingar og fyrirheit um að allt skuli upp á borði, gagnsætt og faglegt. Hún inniheldur ekki niðurstöðukafla enda var settur ríkisendurskoðandi fjarlægður áður en verkefninu lauk og vinnan falin ofan í skúffu.

Skýrsla setts ríkisendurskoðanda vekur einnig upp spurningar um það hvort skýrsla Skúla Eggerts Þórðarsonar ríkisendurskoðanda um Lindarhvol ehf., sem birt var árið 2020, sé nokkuð annað en hvítþvottarskýrsla sem endanlega hafi átt að kveða niður athugasemdir og spurningar Sigurðar Þórðarsonar og blekkja almenning.

Skýrslan, sem nú er fram komin og almenningur getur nú lesið með eigin augum, afhjúpar einnig hversu blygðunarlaust og langt forseti Alþingis og stjórnarliðar voru reiðubúnir að ganga gegn lögmætum rétti almennings til þess að sjá og meta öll gögn málsins, þ.m.t. skýrsla Sigurðar Þórðarsonar, setts ríkisendurskoðanda. Í skýrslunni má lesa hvernig samskipti Ríkisendurskoðunar við Lindarhvol, Seðlabanka Íslands, Fjármálaráðuneytið og slitastjórnir versnar eftir því sem vinnu Sigurðar miðaði àfram. Á endanum mætti honum þögnin ein..

- Auglýsing -

Opinber skýrsla Ríkisendurskoðunar frá apríl 2020 hundsar fjölda athugasemda setts ríkisendurskoðanda og stangast verulega á við það sem kemur fram í vinnu Sigurðar. Þá getur stjórn ekki annað en vakið sérstaka athygli á þeim yfirdrifið jákvæða tón sem slegin er í hinni opinerru skýrslu og er í engu samræmi við þau samskipti sem lýst er í skýrslu setts ríkisendurskoðanda.

Í skýrslu setts ríkisendurskoðanda má finna áhugaverðar upplýsingar um hvernig stjórn Lindarhvols ehf. gerir tilraunir til að stöðva eftirlitið með umkvörtunum um launakostnað og umfang eftirlitsins. Þá koma einnig fram upplýsingar í skýrslunni sem benda til þess að stjórn félagsins hafi raunar aðeins stimplað ákvörðun fjármálaráðuneytisins um ráðningu ”framkvæmdastjóra” sem augljóslega gerir allt tal um ”armslengd” að hlægilegum áróðri.

Verulega má draga í efa sjálfstæði Lindarhvols sem og burði og innviði til að sinna verkefninu sínu. Skýrslan lýsir þannig félagi sem er lítið annað en skúffa en ekki félag burðugt til einkavæðingar á hundruð milljarða af eignum almennings.

- Auglýsing -

Eiginlega er það með ólíkindum eftir kerfisbundið bankahrun 2008 og alla viðleitni síðar til þess að auka gagnsæi og fagleg vinnubrögð innan stjórnkerfisins að framkvæmdavaldið, (fjármála- og efnahagsráðherra) skuli bera ábyrgð á jafn geðþóttalegum og ófaglegum vinnubrögðum 15 árum eftir bankahrunið og sýnilega hafa verið viðhöfð á hans vegum innan Lindarhvols sem fara átti með eignir almennings (ríkisins) fyrir opnum tjöldum eins og fram kemur í regluverki Lindarhvols og upphaflegum fyrirmælum Alþingis.

Settur ríkisendurskoðandi hefur ritað bréf til Ríkissaksóknara vegna málsins og óskar rannsóknar. Stjórn Transparency International á Íslandi lítur svo á að skýrsla setts ríkisendurskoðanda kalli á rannsóknarvinnu á vegum Alþingis, sem eitt getur veitt slíkri rannsókn víðtækt umboð til að afla allra þeirra gagna sem slitastjórnir bankanna, Lindarhvoll, fjármála- og efnahagsráðuneytið og Seðlabankinn hafa ekki látið settum ríkisendurskoðanda í té. Þetta hlýtur Alþingi að skoða sérstaklega þegar ljós verða afdrif málsins hjá ríkissaksóknara.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -