Laugardagur 11. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Íris þótti óþekk í skóla – Var lögð í einelti og leið bölvanlega í mörg ár

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Íris Hólm Jónsdóttir þótti vera óþekk í skóla, hún var lögð í einelti þar sem hún var bráðþroska og henni leið bölvanlega í mörg ár og sinnti ekki náminu sem skyldi og skrópaði oft í skóla. Hún fór út á vinnumarkaðinn eftir skylduna, flosnaði reglulega upp úr vinnu þar sem hún mættti stundum illa eða ekki neitt vegna þess hve henni leið illa, hún fékk loks aðstoð og var greind með jaðarpersónuleikaröskun og svo ADHD. Íris Hólm Jónsdóttir lærði síðar leiklist í New York og leið henni betur í stóra eplinu en eftir að heim kom helltist vanlíðanin aftur yfir hana og hún fékk taugaáfall. Íris var svo greind með geðhvörf í fyrra og hún leggur áherslu á að fólk ræði um geðræn vandamál.

Upplifði sig sem aðhlátursefni

Um eineltið segir hún meðal annars: „Þetta tengdist því að ég var mjög bráðþroska og ég er ekkert feimin að tala um það af því að mér finnst slíkt líka vera eitthvað sem fólk þarf að ræða um. Ég var átta ára þegar ég byrjaði á blæðingum. Ég byrjaði að fá hár undir höndum og hár á lappir og víðar fljótlega eftir það og það voru athugasemdir í sundi og í leikfimi. Bendingar og hlátur til dæmis þegar maður var að leika sér og lyfta bolta eða henda bolta; það var alltaf verið að benda manni á þessa hluti og hlæja að manni og þá upplifði maður sig asnalegan; maður upplifði sig sem aðhlátursefni sem er bara skömm í grunninn.

Ég var höfðinu hærri en allir í árganginum og jafnvel hærri en krakkar sem voru tveimur árum eldri og það var endalaust verið að benda mér á það á göngum skólans,“ segir Íris Hólm Jónsdóttir sem í dag er 1.68 m.

„Það var verið að labba utan í mig og krakkarnir báðust afsökunar og sögðu að þetta væri óvart en þetta var svo sannarlega ekki óvart. Það var verið að labba á mig þannig að ég kannski hentist utan í vegg. Svo var ég með rosalega mikið af unglingabólum mjög snemma; ætli ég hafi ekki verið í 5. bekk – 10 til 11 ára gömul – þegar ég var komin með mikið af bólum á enninu og niður kinnarnar. Það var sagt að ég væri ljót og ég var kölluð „ljóti andarunginn“ og „skrímsli“. Ég ætlaði einu sinni að leita mér aðstoðar og fór til læknis en ég var þá farin að fela þetta með miklu meiki. Læknirinn hló framan í mig 10 ára gamla og sagði að ég liti út eins og næturdrottningin þar sem ég notaði svo mikið meik.“

Sjálfskaðandi hegðun

Hún talar um sjálfskaða á sínum tíma. „Í mínu tilfelli var þetta meira sjálfskaðandi hegðun; djamm og drykkja og jafnvel eitthvað meira en það. Ég gat stoppað það af áður en það fór út í eitthvað meira. Maður var farinn að djamma um hverja einustu helgi og maður var kannski kominn í partí þar sem maður vissi alveg að þetta væri nú kannski ekkert sniðugt. Það var kannski verið að neyta efna en innsæi mitt sagði mér að þetta væri ekki eitthvað sem ég vildi í mínu lífi.

Það var samt erfitt að koma sér út úr þessum aðstæðum af óttanum við höfnun eða einhvers konar viðmót af því að á þessum tíma var ég náttúrlega bara að leitast eftir samþykki alls staðar þar sem ég fór; að ég yrði samþykkt. Ég ímyndaði mér að ef ég færi eða mótmælti þá yrði ég ekki samþykkt þannig að ég lét mig stundum hafa það að vera í aðstæðum sem ég vildi ekki vera í. Svo voru það skaðleg sambönd við karlmenn. Síðan átti ég það til að klóra mig; ég klóraði mig á handleggjunum þannig að það sá stundum á en ég klóraði mig ekki til blóðs.

- Auglýsing -

Þetta gerði ég af og til frá því seint á unglingsárunum þangað til ég var 21 árs. Ég gróf nöglunum ofan í handleggina þannig að ég fyndi fyrir nöglunum en ég gerði þetta til að leiða athyglina frá sársaukanum í huganum. Þetta er leiðin til að ná athyglinni á það sem verið er að gera þá stundina þannnig að hugurinn hættir að snúast eða hamsturinn í hamstrahjólinu hættir að hlaupa.“

Greindist með geðhvörf

Svo var það greiningin í fyrra: Geðhvörf. „Þetta var sjokk að því leytinu til að það eru ákveðnir fordómar gagnvart geðhvörfum. Ég var líka reið. Ég var aðallega reið eða frekar sár, leið og sorgmædd yfir því hversu mikil þöggun er varðandi geðhvörf. Ef það væri talað jafnopinskátt um geðhvörf og aðra sjúkdóma – líkamlega eða andlega – þá velti ég því fyrir mér hvort það hefði verið hægt að spotta einkenni hjá mér fyrr.“

Hræðir það hana að vita að hún sé með geðhvörf? „Ég veit ekki hvort það valdi mér beint hræðslu. Mér finnst það vera ákveðin frelsun að vera komin með þessa greiningu. Nú fer ég að pæla í ýmsu og geri mér grein fyrir hvers vegna ég gerði ýmislegt hérna áður fyrr. Áður skildi ég ekki af hverju ég var ekki eins og venjulegt fólk. Núna veit ég að ég hef ekki stjórn á þessu. En það hræðir mig ekki.“

- Auglýsing -

Lesið meira hér

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -