Í grein Mannlífs í gær var sagt frá því að Andrés Þorsteinn Sigurðsson yfirhafsögumaður Vestmannaeyjahafnar hafi sagt starfi sínu lausu vegna meints eineltis í garð hans af hálfu Írisar Róbertsdóttur bæjarstjóra Vestmannaeyjabæjar.
Mannlíf náði tali af Írisi og spurði hana hvort það væri satt að Andrés Þorsteinn Sigurðsson yfirhafsögumaður Vestmannaeyjahafnar hafi sagt starfi sínu lausu vegna meints eineltis hennar í garð hans.
Íris var ákveðin í svörum sínum og sagði ásakanir Andrésar á hendur sér vera ósannar og hreinar dylgjur og rangindi:
„Þessar ásakanir eru tilhæfulausar og órökstuddar með öllu,“ segir Íris og bætir við:
„Viðkomandi starfsmaður var meðal umsækjenda um starf hafnarstjóra fyrr á árinu, en fékk ekki starfið. Framkvæmda- og hafnarráð réð annan einstakling í starfið, sem það mat hæfari en Andrés.“
Íris tekur með öllu fyrir að hún hafi á einhvern hátt komið nálægt ráðningarferlinu:
„Ég kom hvergi nálægt því ferli, enda er það ekki á verksviði bæjarstjóra. En í kjölfar þess að hann fékk ekki starfið virðist hann hafa ákveðið að ráðast að mér persónulega með órökstuddum dylgjum sem ég vísa algjörlega á bug,“ sagði Íris að lokum.