Yfirlögfræðingur ASÍ, Magnús Norðdahl, er fyrsti fulltrúi Íslands í stjórn Alþjóða vinnumálastofnunnarinnar. Stofnunin fagnar 100 árum í ár. Magnús var kjörinn í stjórnina á 108 þingi stofnunarinnar í Genf.
„Fulltrúar íslenskra atvinnurekenda og stjórnvalda eru einnig þátttakendur og félags- og barnamálaráðherra var viðstaddur setningu þingsins,“ segir í tilkynningunni. Ásamt Magnúsi situr Drífa Snædal forseti ASÍ fyrstu daga þingsins Þá tekur Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, þátt í Norrænum ILO skóla og situr þingið sem nemandi Magnúsar.
„Alþýðusamband Íslands mun leggja sitt lóð á vogaskálarnar til að þessi tilmæli, ef þau verða að veruleika, verði fullgilt á Íslandi enda í samræmi við stefnu stéttarfélaganna, samtaka atvinnurekenda og stjórnvalda.“
Alþjóða vinnumálastofnunin var stofnuð á grunni þríhliða samstarfs: Stéttarfélaga, stjórnvalda og atvinnurekenda. „Í gegnum hana hafa verið samþykktir merkustu sáttmálar heims; svo sem bann við nauðungarvinnu, réttinn til þátttöku í stéttarfélögum, réttinn til verkfalla, bann við barnavinnu, bann við mismunum og svo mætti lengi telja. Stofnunin hefur einfaldlega sett viðmið um hvað séu réttar og sanngjarnar reglur á vinnumarkaði heimsins síðustu 100 árin.
Samkvæmt tilkynningu ASÍ er bundið vonir við að á þinginu verði samþykkt ný tilmæli gegn ofbeldi og áreiti í vinnuumhverfi. „Þetta yrði fyrsti alþjóðasáttmáli sinnar tegundar og markar tímamót í alþjóðlegri baráttu gegn áreiti og ofbeldi. Hvort tekst að samþykkja tilmælin kemur í ljós þann 21. júní en þessar tvær vikur á þinginu verða nýttar til að klára viðræður um orðalag og efni,“ segir í tilkynningu ASÍ.
„Ísland hefur ekki verið neitt sérstaklega duglegt við að fullgilda sáttmála og tilmæli frá ILO, að undanskildum grundvallarsáttmálunum. Betur má ef duga skal.“