Íslensk sendinefnd sem mætir á aðildaríkjaþing loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Bakú í Aserbaísjan, COP29, verður skipuð 46 fulltrúum. Í þeim hópi er 10 manna opinber sendinefnd auk fulltrúa félagasamtaka. Þar verða ungir umhverfissinnar og náttúruverndarsamtök. Alþingismenn og ráðherrar verað ekki með í för vegna komandi alþingiskosninga. Þar sparast væntanlega tugmilljónir króna. Morgunblaðið segir frá þessu í dag og byggir á svari frá umhverfisráðuneytinu. Guðlaugur Þór Þórðarson er umhverfisráðherra og ber ábyrgð á málaflokknum. Hann situr heima eins og aðrir stjórnmálamenn.
Kostnaður við hvern og einn fulltrúa nemur á bilinu 760 þúsund krónum til 1,8 milljón. Ef tekin er miðlæg tala er kostnaður á mann um 1,3 milljónir. Fyrir allan hópinn er heildarkostnaður þannig rúmlega 50 milljónir króna.
Af 10 manna opinberri sendinefnd Íslands eru fimm fulltrúar umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, þrír fulltrúar frá utanríkisráðuneytinu, einn frá Umhverfisstofnun og einn frá Ungmennaráði Íslands. Tveir fulltrúanna sækja fundinn alla dagana, en stærstur hluti sendinefndarinnar tekur aðeins þátt í hluta fundarins. Endanlegur kostnaður liggi ekki fyrir fyrr en eftir að þinginu lýkur.
Listinn yfir þátttakendur er langur, samkvæmt Morgunblaðinu. Frá umhverfisráðuneytinu fara Helga Barðadóttir, Magnús Agnesar Sigurðsson, Stefán Guðmundsson, Steinunn Sigurðardóttir og Elín Björk Jónasdóttir. Frá utanríkisráðuneytinu fara Elín Rósa Sigurðardóttir, María Erla Marelsdóttir og Brynhildur Sörensen. Nicolle Keller verður fulltrúi Umhverfisstofnunar og Viktor Pétur Finnsson frá Ungmennaráði Íslands. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið styrkir fulltrúa ungmenna til þátttöku á fundinum.
Tinna Hallgrímsdóttir fer fyrir hönd Seðlabankans, Hrefna Guðmundsdóttir og Laura Sólveig Lefort Scheefer eru fulltrúar ungra umhverfissinna. Þorgerður M. Þorbjarnardóttir fer fyrir Landvernd. Nótt Thorberg, Hans Orri Kristjánsson og Viktoría Alfreðsdóttir fara fyrir Green by Iceland, Ríkharður Ríkharðsson er fulltrúi Landsvirkjunar, Edda Sif Pind Aradóttir frá Carbfix, Helga Jóhanna Bjarnadóttir og Birta Kristín Helgadóttir fara fyrir Eflu, Carine Chateney og Egill Viðarsson fara fyrir Verkís, Árni Hrannar Haraldsson og Hjálmar Helgi Rögnvaldsson fara fyrir Orku náttúrunnar, Bjarni Herrera fer fyrir Accrona, Kristjana María Kristjánsdóttir og Caroline Ott fara fyrir CRI, Arna Pálsdóttir og Snorri Þorkelsson frá Orkuveitunni, Lotte Rosenberg frá Carbon Recycling International, Adrian Matthias Siegrist frá Climeworks og Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir frá Carbfix.