Fjölskipuð áfrýjunarnefnd Hugverkastofu Evrópusambandsins hefur nú vísað frá áfrýjun Iceland Foods í deilu keðjunnar og íslenskra stjórnvalda vegna vörumerkjaskráningar á orðinu Iceland.
Telst því skráning verslunarkeðjunnar ógild, en þetta kom fram á vefmiðlinum Vísi.
Hin áðurnefnda fjölskipaða áfrýjunarnefnd kvað upp dóm sinn í síðustu viku; en í stuttu máli hefur deilan snúist um hvort að fyrirtæki geti mögulega slegið eign sinni á heiti fullvalda ríkis.
Á fyrri stigum málsins, árið 2019, hafði Ísland betur í deilunni; Iceland Foods áfrýjaði niðurstöðunni.
Var ákveðip að halda munnlegan málflutning vegna málsins fyrir fjölskipuðu áfrýjunarnefndina.
Það var lögmaðurinn Ásdís Magnúsdóttir sem flutti málið fyrir hönd Íslands:
„Við erum hér til að sækja vernd fyrir nafnið á landinu okkar,“ sagði Ásdís er málið var tekið fyrir í september, síðastliðið haust.
Eins og áður sagði var áfrýjuninni vísað frá fjölskipuðu áfrýjunarnefndinni og stendur úrskurðurinn frá 2019 því óhaggaður; sem þýðir að vörumerkjaskráning Iceland Foods á orðmerkinu Iceland í Evrópusambandinu er ógild; skráningarnar skuli felldar úr gildi.
Niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar má áfrýja til Evrópudómstólsins, sem myndi þá taka algjöra lokaákvörðun í málinu.