Íslandsbanki lokar útibúum á Granda og Höfða á næstunni, og eftir það mun aðeins eitt útibú bankans vera opið í Reykjavík, og alls þrjú á höfuðborgarsvæðinu.
Kemur þetta fram í tilkynningu frá bankanum, þar sem sagt er að bankaþjónusta hafi breyst mikið á undanförnum árum. Þá hafi kórónuveirufaralduinn flýtt þessari þróun á síðustu misserum, auk þess sem notkun bankaþjónustu í appi hafi margfaldast.
Útibúið á Suðurlandsbraut verður það eina eftir í Reykjavík, og einnig verður afgreiðsla í höfuðstöðvum Íslandsbanka í Smáranum, og í útibúinu í Strandgötu í Hafnarfirði.
Í samtali við Mbl segir Edda Hermannsdóttir upplýsingafulltrúi Íslandsbanka að lokanir útibúanna hafi ekki uppsagnir í för með sér, heldur verði starfsfólk fært til í útibúið á Suðurlandsbraut og í aðalstöðvarnar. Heimsóknum í útibú bankans hafi fyrstu dagana eftir opnun eftir kórónuveirufaraldurinn hefur fækkað um 70% að sögn Eddu, miðað við sama tíma í fyrra.
Þjónusta við lítil- og meðalstór fyritæki á höfuðborgarsvæðinu verður frá og með 8. júní sameinuð í eina Fyrirtækjamiðstöð í Norðurturni, höfuðstöðvum Íslandsbanka.