„Það er engin rök að baki þessu og þetta meikar engan sens,“ segir Elín Björk Ragnarsdóttir sem er stödd í Cabo Roig, sem tilheyrir Valencia héraði á Spáni. Þar eiga þau hjónin, Elín og Einar Örn, sumarhús og hugðust dvelja þar yfir páskana ásamt 11 ára dóttur sinni, Evu Maríu.
Þau eru afar ósátt við þá ákvörðun stjórnvalda að setja Spán á áhættulista frá 1. apríl nk. vegna Covid-19. Tilkynning þess eðlis barst frá ræðismanninum á Spáni í dag.
„Hér eru engin rauð svæði en eitt lítið hérað er grátt. Þar að auki er algjört bann á ferðalög milli sýslna og héraða. Þýðir þetta virkilega að allir sem komi frá Spáni verði sendir að óþörfu í sóttvarnarhús með tilheyrandi kostnaði og óþægindum?“ spyr Elín Björk.
Hún og Einar segja eins og blauta tusku að fá þessu dengt framan i sig.
„Í vélinni sem við komum með, þann 27. mars, þori ég að fullyrða að langflestir hafi verið sumarhúsaeigendur eins og við. Eftir að hafa átt hús hérna frá því 2014 erum við farin að þekkja flest öll andlitin.“
Einar bætir við að það sé algjöra rökleysa að banna komur frá meginlandinu en hleypa inn fólki frá Kanaríeyjum. „Nýgengi smita er langt undir viðmiðunarmörkum á meginlandinu, aðeins 143, og langtum minna en á Kanaríeyjum sem er rautt svæði. Samt er þeim hleypt inn en ekki okkur. Þetta er óskiljanleg ákvörðun.“
„Við getum ekki verið í mánuð frá vinnu og skóla“
Elín og Einar segjast ekki vita hvenær þau komist heim. „Hugmyndin var að vera yfir páskana. Við áttum flug heim 7. apríl en nýju reglurnar gilda til 9. apríl. Við hefðum alveg þolað við í sólinni í nokkra daga til viðbótar og fljúga heim nokkrum dögum eftir það. En nú heyrum við frá Vita ferðaskrifstofu að ef við nýtum okkur ekki það, fáum við ekki flug heim fyrr en 1. maí. „Við getum ekki verið í mánuð frá vinnu og skóla. En nú erum við föst í bili.“