Fimmtudagur 2. janúar, 2025
1.8 C
Reykjavik

„Íslendingar ættu að nýta þau tækifæri sem hljótast með auknum flutningum á norðurslóðum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Heiðar Guðjónsson, formaður Efnahagsráðs norðurskautsins og forstjóri Vodafone og Stöðvar 2, segir í samtali við Kjarnann ýmsa kosti vera fyrir Ísland við þátttöku í Belti og braut, meðal annars aðgangur að gríðarlegu fjármagni til að byggja upp innviði. Þá séu kostirnir sérstaklega miklir fyrir skipafélög, verktaka og flugfélög sem felist í flutningatengdum innviðum og gagna- og vöruflutningum. Ítarleg fréttaskýring um Belti og braut eru í nýjasta tölublaði Mannlífs og á kjarninn.is.

 

„Innviðir á Íslandi eru takmarkaðir og miðað við hvað landið er ríkt hefur fjárfesting í innviðum setið á hakanum,“ segir Heiðar. „Ísland var í fyrndinni þjónustumiðstöð fyrir verslun á norðurslóðum. Hafnir á Íslandi eru íslausar árið um kring og er Ísland eina norðurslóðalandið með slíkar hafnir,“ segir hann. „Íslendingar ættu jafnframt að nýta þau tækifæri sem hljótast með auknum flutningum á norðurslóðum og ætti landið að vera þjónustumiðstöð í Atlantshafi.“

Heiðar segir mikilvægt að þátttaka í Belti og braut sé á forsendum heimamanna, þannig að lögsagan sé skýr. „Að Kínverjar séu að öðlast yfirráð í löndum sem þeir fjárfesta í er fjarstæðukennt,“ segir hann.

Með eða á móti ekki eina leiðin
Heiðar bendir á að Ísland hafi ekki einungis þessa tvo kosti; að taka annaðhvort þátt eða ekki. Þriðji kosturinn sé að fara að fyrirmynd Finna, það er að skrifa ekki undir þátttöku, heldur gera sérsamninga við kínversk stjórnvöld um verkefni sem rúmast til hliðar við Belti og braut. Þannig gangi Finnar ekki beint inn í heildarverkefni Beltis og brautar heldur geri sérsamninga um sérstök verkefni.

Hann segir að Norðurlöndin hafi enn ekki gerst formlegir aðilar að Belti og braut, en að Finnland fái gríðarlega fjárfestingu í sína innviði. „Finnland er með verkefni að byggja neðansjávargöng frá Helsinki til Tallin að verðmæti 15 milljarða evra þar sem bæði Kínverjar og Evrópusambandið eru fyrirferðamikil innan þess verkefnis.“

„Annað verkefni er fjárfesting upp á 3 til 5 milljarða evra fyrir járnbraut frá Rovaniemi til Kirkenes. Þar eru bæði kínverskir aðilar og Evrópusambandið að fjárfesta,“ segir Heiðar. „Þessi fjárfesting, að búa til samgönguæð frá Kirkenes til Finnlands og tengja beint við Evrópu, skiptir Finna gríðarlega miklu máli. Það er dæmi um verkefni sem Kínverjar taka mikinn þátt í,“ segir hann.

- Auglýsing -

Heiðar bendir á að Finnar leggi nú jafnframt sæstreng Norð-Austurleiðina, þar sem strengurinn fari norður fyrir Síberíu og niður til Japan og Kína. „Ef Kínverjar byggja innviði í Finnlandi þá hafa þeir ekki lögsögu þar. Þeir taka áhættu með því að fjárfesta í landinu. Þeir þurfa að haga sér í samræmi við lög og reglur í viðkomandi landi, annars er hætta á að innviðir séu þjóðnýttir.“

„Ameríkanar vilja alls ekki að við skrifum upp á svona samninga við Kína. Nú er kapphlaup hafið um uppbyggingu innviða á norðurslóðum,“ segir Heiðar. „Bandaríkin reyna að stilla mönnum upp, segja „við eða þeir.“ Bretar hafa hins vegar sótt sér tækifæri í því að semja bæði til austurs og vesturs,“ segir hann og bætir því við að hann telji að Íslendingar ættu ekki að skipa sér í ákveðið lið. Farsælast væri að eiga viðskipti til bæði austurs og vesturs.

Fréttaskýringuna má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Mannlífs og á kjarninn.is.

- Auglýsing -

Texti / Guðbjörg Ríkey Th. Hauksdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -