„Alþjóðlegur dagur vatnsins var haldin í gær 22. mars. Dagurinn er haldinn ár hvert til að minna á mikilvægi vatnsauðlindarinnar. Íslendingar eru svo heppnir að eiga einhverja stærstu vatnsauðlind á mannsbarn í heiminum. Við búum við líklega eitt tærasta grunnvatn á Vesturlöndum, sem má rekja til stórra – grunnvatnsgeyma fjarri byggð og umsvifum mannsins. Á Íslandi er grunnvatnið nýtt til drykkjar, matvælaframleiðslu og iðnaðar.
Athyglin í ár beinist einmitt að grunnvatni með slagorðinu „gerum hið ósýnilega sýnilegt.“ Þetta segja Hrund Ó. Andradóttir, prófessor í umhverfisverkfræði við Háskóla Íslands, og María J. Gunnarsdóttir, sérfræðingur við Vatnaverkfræðistofu skólans sem rituðu saman grein í tilefni Alþjóðlegs dags vatnsins.
„Undir fótum okkar liggur falinn fjársjóður sem auðgar líf okkar. Næstum allt fljótandi ferskvatn í heiminum er grunnvatn, sem verður sífellt mikilvægara með loftslagsbreytingum. Því er mikilvægt að vinna að sjálfbærri stjórnun þessarar dýrmætu auðlindar, að vernda hana og nýta skynsamlega. Grunnvatn er hulið, en ætti ekki að vera úr huga, eins og Sameinuðu þjóðirnar komast að orði.“
Í tilkynningu í tilefni dagsins segja þær að mikilvægt sé að gera sér grein fyrir því að það sem við gerum ofanjarðar skiptir máli neðanjarðar. Merkja má athafnir mannsins og umsvif mannvirkja í vatninu í nærumhverfi okkar. Sem dæmi, þá er slit malbiks og dekkja ein stærsta uppspretta örplasts í vatnavistkerfum. Nýleg rannsókn við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands ályktaði að helsta ástæða fyrir myndun göturyks í Reykjavík er að nær annar hver bíll er á nagladekkjum á veturna. Helmingur ryksins sem nagladekkin spæna upp ratar í vatnavistkerfin okkar, hinn helmingurinn veldur ítrekuðum svifryksdögum sérstaklega þegar snjóa leysir á vorin.
Örmengunarvaldar hafa mælst erlendis í grunnvatni, í fiskafurðum og í mannslíkamanum. Efnin eru oftast þrávirk, safnast upp í lífkeðjunni, og talin valda hormónaröskunum og/eða alvarlegum sjúkdómum. Sum efnin skolast af þökum, klæðningum og gróðri eins og t.d. þungmálmar, plastefni, eld- og rotvarnarefni, sveppa- og skordýraeitur. Önnur skolast af götum, eins og t.d. fjölhringa arómatísk kolvetni sem myndast við bruna eldsneytis. Þá berast leifar lyfja, snyrti- og hreinsivara með heimilisskólpi í vötn. Þótt efnin séu í litlu magni, þá gætir áhrifa þeirra engu að síður, og jafnvel eftir að notkun þeirra er hætt. Til dæmis eru vatns- og fitufráhrindandi PFAS efni, sem notuð eru í ýmsum varningi innan og utan heimilis, nánast óniðurbrjótanleg, svokölluð eilífðarefni.
Skilaboðin frá þeim til Íslendinga á degi vatnsins í gær eru:
• Nálgumst vatnið okkar með aðgát og virðingu
• Notum efni varlega og sparlega
• Hættum að keyra á nagladekkjum
• Fylgjumst vel með vatninu okkar með reglubundnum mælingum“