Laugardagur 26. október, 2024
3.4 C
Reykjavik

Íslendingar flykkjast til tannlækna í útlöndum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fleiri en áður fara í frí til útlanda og fara til tannlæknis í leiðinni. Tannlæknaþjónusta er 50-70% ódýrari í Austur-Evrópu en hér á landi.

Rósa Kristín Benediktsdóttir er tengiliður ungversku tannlæknastofunnar Madenta í Búdapest.

„Við byrjuðum í mars og ég ætlaði að gera þetta að aukavinnu. En það hefur verið mikil eftirspurn. Fimm hafa farið út og ég er með tugi pantana frá fólki sem er að skoða það að fara til tannlæknis í Búdapest,“ segir Rósa Kristín Benediktsdóttir, sem er tengiliður ungversku tannlæknastofunnar Madenta í Búdapest.

Mikil ásókn hefur verið upp á síðkastið hjá fólki á miðjum aldri, örorkuþegum og lífeyrisþegum að fara í tannviðgerðir í Austur-Evrópu. Pólland og Ungverjaland eru vinsælustu löndin um þessari mundir. Ásóknin skýrist af því að tannlæknastofur frá löndunum eru með tengiliði hér á landi. Þá hjálpar til að beint flug er til landanna og endurgreiða Sjúkratryggingar tannlæknakostnað fyrir lífeyrisþega, þ.e. örorku- og ellilífeyrisþega.

Oftast er um að ræða dýrari tannviðgerðir á borð tannplönt, það er þegar ný tönn er skrúfuð ofan í rótarstæði, en einnig krónur og brýr og margt fleira. Yngra fólk leitar eftir tannfegrun. Ætla má að tannlæknakostnaðurinn í Ungverjalandi sé 50-70% lægri en hér á landi.

Rósa fór sjálf til tannlæknis í Búdapest árið 2014 og aftur í fyrra. Í kjölfarið ræddi hún við eiganda tannlæknastofunnar Madenta og varð úr að hún gerðist tengiliður hennar hér á landi. Þau réðust í að búa til heimasíðu fyrir tannlæknastofuna á íslensku og auglýsa á samfélagsmiðlum. Undirtektirnar hafa verið framar vonum,“ segir Rósa, sem er með aðstoðarmanneskju sem talar við fólk yfir daginn.

„ … það hefur veriðmikil eftirspurn. Fimm hafa farið út og ég er með tugi pantana frá fólki sem er að skoða það að fara til tannlæknis í Búdapest.“

Þjónustan sem boðið er upp á ytra er nokkuð önnur en fólk á að venjast hér. Algengast er að fólk sendi Rósu röntgenmynd frá tannlækni. Í kjölfarið gerir tannlæknastofan tilboð og útlistar kostnað við tannviðgerðina. Boðið er upp á staðgreiðsluafslætti og ýmislegt fleira, að hennar sögn.

Rósa bætir við að hún hafi fengið misjafnar undirtektir hjá íslenskum tannlæknum.

- Auglýsing -

„Það hlýtur að vera svolítill samkeppnistitringur. Okkar viðskiptavinir hafa margir rætt þetta við sína tannlækna, haft þá með í ráðum og þeir gera sér grein fyrir því að það er ódýrara að fara út og að þjónustan er góð.“

Tannlæknar gefa vinnu sína
Mannlíf leitaði viðbragða Þórunnar Sveinbjörnsdóttur, formanns Landssambands eldri borgara, vegna málsins. „Við vitum af því að tannlæknar hafa þurft að gefa vinnu sína því eldra fólk hefur ekki efni á að fara til tannlæknis. Fólk fer í minni aðgerðir en sleppir þeim stærri sem kosta frá hálfri milljón og upp úr,“ segir hún og bætir við að íslenski stjórnvöld hafi skilið eldri borgara eftir hvað snertir niðurgreiðslu vegna tannlækninga. Niðurgreiðslan hafi ekki hækkað síðan árið 2004.

„ … margir eru illa haldnir af tannskemmdum og bíða eftir aðgerðum hins opinbera.

Hún bendir á að starfshópur hafi nýverið lokið störfum um málið og skilað tillögum sínum til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Það hefur skilað því að 1. júlí verða 500 milljónir króna lagðar til niðurgreiðslu vegna tannlækninga á þessu ári og einn milljarður framvegis frá næsta ári.

- Auglýsing -

„VIð gerum ráð fyrir því að þetta verði með þessum hætti í nokkur ár,“ segir Þórunn. „En þessi biðtími hefur valdið því að mjög margir eru illa haldnir af tannskemmdum og bíða eftir aðgerðum hins opinbera.“

31 fengið endurgreiðslu það sem af er ári
Í júní árið 2016 var gefin út reglugerð um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri en samkvæmt henni eiga sjúklingar rétt á að sækja sér heilbrigðisþjónustu til annarra aðildarríkja á EES-svæðinu og fá endurgreiddan útlagðan kostnað.

Árið 2016 fór enginn héðan til útlanda vegna tannlækninga og því kom ekki til að Sjúkratryggingar þyrftu að greiða fyrir slíkt. Ári síðar fóru 28 utan þar af 20 til Ungverjalands. Endurgreiðsla til þessara 20 einstaklinga nam rúmum 2,2 milljónum króna.

Það sem af er ári, þ.e. frá ársbyrjun og þar til snemma í mars, hefur 31 einstaklingur fengið endurgreiðslu Sjúkratrygginga vegna tannlækninga. Þar af er eitt barn undir 18 ára aldri. Þar af hafa 12 fengið lækningu á Spáni en 10 í Ungverjalandi. Endurgreiðslan á fyrstu þremur mánuðum ársins nemur rúmum 2,5 milljónum króna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -