Á dögunum var tekin upp grímuskylda í framhalds- og háskólum á höfuðborgarsvæðinu til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu á COVID. Þetta þótti nokkuð óumdeilt meðal flestra enda markmiðið að stöðva pláguna sem flestir hata. Innan hópsins Coviðspyrnan varð þó allt brjálað. Innan hópsins eru nokkrir þræðir um málið og margar athugasemdir við hvern þráð. Hópurinn telur tæplega þúsund Íslendinga sem ýmist efast um tilvist COVID eða finnst ríkið ganga of langt.
Linda Jóhannsdóttir er mjög virk innan hópsins og er óhætt að segja að henni lítist ekki á blikuna. Hún stofnar þráð og skrifar: „Við verðum að reyna að stoppa þessa grímuskyldu ungmennana okkar núna. Þetta er bara upphafið af skelfilegri stefnu sem mun skaða unga fólkið og við bara getum ekki látið þetta yfir þau ganga. Ég mæli með að við spyrjum þrjár spurningar og sendum á alla þingmenn og fálkaorðutríóið, við öll, hvert og eitt einu sinni á dag, alla daga þar til við fáum svör. Það mun virkilega pirra þetta fólk og gera þeim lífið erfitt. Spurningarnar mega bara snúa að þessu nýjasta, grímuskylda ungmenna. Hvað segið þið um það? Næst verður grímuskylda í barnaskólum, svo grímuskylda í búðum, úti, allsstaðar, svo bólusetning. Þetta stefnir bara í eina átt.“
Grímur hættulegri en COVID
Hún spyr svo nokkrurra spurninga: „Ein spurning: Afhverju þarf ungt fólk, sem hvorki smitar né veikist alvarlega af Covid að vera með grímur allan daginn í skóla? Hver eru vísindalegu rökin fyrir þessu (ef einhver)? Önnur tillaga að spurningu: Hefur einhver hugsað út í skaðlegar afleiðingar af 8 klst grímunotkun, andlegar og líkamlegar fyrir unga fólkið okkar?“
Nokkur fjöldi virðist alveg sammála Lindu og almenn niðurstaða að senda þessar spurningar á sem flesta ríkisstarfsmenn og skólastjóra. Ein kona Kristín Johansen, eigandi skóbúðarinar Fló, birtir skjáskot af tölvupósti sínum til skólastjóra Versló. Hún segist vonsvikin og útskýrir: „Grímur hefta súrefnisflæði í líkamann! Það er nauðsynlegasta fyrir frumur til að vinna á veirum/vírusum er m.a. súrefni! Þetta er því galið!“ Hún segist því hafa ákveðið að dóttir hennar muni ekki nota grímu.
Þessi umræða heldur svo áfram þar til ein kona segir: „Skólinn er ekki þess virði að þurfa að beigja sig fyrir svona fíflaskap“.
Ráðamenn fá bréf daglega
Þetta er þó hvergi nærri eini þráðurinn um þetta málefni innan þessa hóps. Í öðrum þræði er því velt upp hvernig megi stoppa grímuskyldu með vísan til laga. „Meira kjaftæðið! Verð bara reið að sjá þetta. Að venjulegir Íslendingar skuli láta plata sig svona í að veikja ónæmiskerfi barnanna okkar! Það mikilvægasta sem við þurfum er súrefni Hvar eru foreldrarnir? Ég myndi ekki sætta mig við þetta,“ segir Dóra Sigurðardóttir og fær nokkur fjölda læka.
Því svarar Helga Vilborg Sigurjónsdóttir trúboði: „Við erum nokkur að vinna í þessu en ég vildi óska að það væru fleiri foreldrar sem sjá hversu fáránlegt þetta er og myndu taka slaginn með okkur“. Í þeim þræði upplýsir fyrrnefnd Linda að ráðamenn Íslands fái daglega bréf frá henni. Erna Ýr Öldudóttir, sem hefur vakið athygli fyrir öfgakenndar skoðanir í ýmsum málefnum, skrifar þar: „Það er engin lagastoð fyrir ýmsu af því sem stjórnvöld eru að skylda og sekta fólk til að gera.“
„Hvernig er fólk svona heimskt?“
Inga G. Halldórsdóttir er svo með ákveðið ráð til að stöðva grímuskyldu. „Það sem ég held að þurfi að gerast er að einhver neitar að nota grímu vegna þess að það vantar vísindalegan rökstuðing fyrir því að nota hana og er rekin út fyrir það, tekur það upp og fer í mál. Þá þurfa þeir að sanna að það sé réttlætanlegt að bera upp svona grímuskyldu. Það þarf held ég eitthvað svoleiðis að gerast. Þá er bara spurning hvering farið er að því, hvort þurfi lögfræðing með í slaginn. Þurfum að leggjast yfir það hvernig veið getum borið okkur að við það.“
Í þriðja þræðinum um grímuskylduna eru meðlimir hópsins miður sín og segja þetta ömurlegt. Einn fárra karla sem tjáir sig, Páll Heimir Einarson, skrifar þar: „Viđ erum ađ gera börnin ađ taugahrùgum. Þau verđa hrædd viđ allt.“
Því svarar Agnes Thorsteins: „Nú þarf að byrja að mótmæla. Hvernig er fólk svona heimskt?“