Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Íslendingar sem vöktu athygli á árinu 2018

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ritstjórn Mannlífs tók saman lista yfir nokkra Íslendinga sem hafa vakið athygli fyrir framgöngu sína á árinu sem er að líða.

Elísabet Margeirsdóttir.

Elísabet Margeirsdóttir

Næringarfræðingurinn og hlaupakonan Elísabet Margeirsdóttir vann hug og hjörtu þjóðarinnar þegar hún kláraði 409 kílómetra hlaup í gegnum Góbí eyðimörkina í Kína. Ekki nóg með að hún kláraði hlaupið heldur varð hún í 9. sæti af 60 og langfyrst kvenna. Hún hljóp kílómetrana 409 á 96 klukkustundum og 54 mínútum og varð fyrsti Íslendingurinn til að ljúka þessari þolraun.

Sigurður Kjartan Hilmarsson

Sigurður Kjartan Hilmarsson seldi fyrirtæki sitt, The Icelandic Milk and Skyr Corporation, til franska matvælarisans Lactalis fyrir um 30 milljarða króna í byrjun ársins. Það var 14 árum eftir að hann hóf að gera tilraunir með skyrframleiðslu í eldhúsinu heima hjá sér en á þeim tíma byggði hann upp vörumerkið Siggi´s Skyr af mikilli elju.

Helga Elín Herleifsdóttir.

Þær rufu þögnina

Helga Elín Herleifsdóttir, Kiana Sif Limehouse og Lovísa Sól Sveinsdóttir sýndu einstakt hugrekki á árinu þegar þær stigu fram í fjölmiðlum og lýstu meintu kynferðisofbeldi sem þær urðu fyrir af hendi sama mannsins, lögreglumanns sem þær höfðu báðar kært en málunum var vísað frá og maðurinn hélt starfi sínu. Helga Elín og Kiana Sif, prýddu báðar forsíður Mannlífs sem greindi fyrst frá málinu, en með því að rjúfa þögnina vildu þær m.a. vekja athygli á brotalömum á rannsókninni og kerfi sem brást.

- Auglýsing -

Sjá einnig: „Ríkislögreglustjóri brást dóttur minni“

Sjá einnig: „Kvöldið áður en ég sagði frá misnotaði hann mig í seinasta skiptið“

Benedikt Erlingsson

- Auglýsing -

Benedikt Erlingsson hefur á undanförnum árum skipað sér í hóp athyglisverðustu leikstjóra Evrópu og 2018 var honum einkar gjöfult. Kvikmynd hans Kona fer í stríð hefur farið mikinn á kvikmyndahátíðum víða um heim og hlaut meðal annars Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs. Á dögunum var svo greint frá því að stórleikkonan Jodie Foster muni leikstýra og leika aðalhlutverkið í enskri útgáfu myndarinnar.

Bára Tómasdóttir.

Bára Tómasdóttir

Einar Darri Óskarsson lést í maí á þessu ári eftir neyslu róandi lyfja, 18 ára gamall. Bára Tómasdóttir, móðir Einars Darra, stofnaði í kjölfarið minningarsjóð um son sinn og setti forvarnarátakið Ég á bara eitt líf á laggirnar með það að markmiði að varpa ljósi á fíkniefnavandann á Íslandi.

Bára Halldórsdóttir

Bára Halldórsdóttir setti íslenskt stjórnmálalíf á annan endann þegar hún tók upp samræður þingmanna Miðflokksins og Fólks flokksins á Klausturbar í nóvember. Málinu er þó ekki lokið fyrir Báru því þingmenn Miðflokksins stefndu henni fyrir dóm til að gera frekari grein fyrir upptökunum. Málið mun koma til kasta Landsréttar auk þess sem Persónuvernd skoðar málið.

Ísold Uggadóttir

Ísold Uggadóttir vakti heimsathygli þegar hún var fyrst Íslendinga valin besti alþjóðlegi leikstjórinn í flokki alþjóðlegrar kvikmyndagerðar á Sundance-kvikmyndahátíðinni í Utah í Bandaríkjunum snemma á árinu. Mynd hennar „Andið eðlilega“ hefur hlotið lof gagnrýnenda um allan heim og sópað til sín verðlaunum og svo virðist sem ekki sjái enn fyrir endann á þeirri sigurgöngu.

Arnór Sigurðsson.

Arnór Sigurðsson

Arnór Sigurðsson vakti athygli stórliða í Evrópu fyrir góða frammistöðu með sænska liðinu Norrköping í byrjun ársins og það var rússneska stórliðið CSKA Moskva sem bauð best og þangað fór hann í sumar. Þrátt fyrir það vissu ekki margir deili á þessum 19 ára Skagamanni fyrr en hann sló í gegn í Meistaradeild Evrópu þar sem hann skoraði meðal annars laglegt mark gegn Evrópumeisturum Real Madrid á Bernabeu.

Sanna Magdalena Mörtudóttir

Sanna Magdalena Mörtudóttir hefur sannarlega vakið athygli fyrir skelegga framgöngu sem oddviti Sósíalistaflokksins í Reykjavík og þykir trúverðugur málsvari hinna verst settu. Sósíalistaflokkurinn fékk 6,4% atkvæða í Reykjavík í síðustu borgarstjórnarkosningum eða meira en tvöfalt meira fylgi en allir nýju flokkarnir til samans og vilja sumir meina að þetta góða gengi flokksins sé að miklu leyti Sönnu að þakka.

Jón Þór Birgisson

Jón Þór Birgisson, betur þekktur sem Jónsi úr Sigur Rós, er tilnefndur til Golden Globe-verðlauna fyrir besta lag. Um er að ræða lagið Revelation sem er að finna í kvikmyndinni Boy Erased. Nicole Kidman og Russel Crowe eru meðal þeirra sem fara með hlutverk í myndinni. Lagið samdi Jónsi ásamt Brett McLaughlin og Troye Sivan. Golden Globe hátíðin fer fram 7. janúar.

Mynd / Aldís Pálsdóttir

Hjördís Svan Aðalheiðardóttir

Í vor fékk Hjördís Svan Aðalheiðardóttir fullt forræði yfir dætrum sínum þremur eftir átta ára baráttu. Dæturnar höfðu búið hér á landi utan kerfis og án vegabréfa síðan Hjördís sótti þær ólöglega til Danmerkur árið 2013 en hún var í kjölfarið handtekin og dæmd í 18 mánaða fangelsi fyrir brottnámið.

Sjá einnig: „Stolt af fangavistinni“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -