Fimmtudagur 2. janúar, 2025
1.8 C
Reykjavik

„Íslendingar tilbúnir fyrir eitthvað hrekkjavökutengt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Greta Salóme, söngkona og fiðluleikari, heldur nú, þriðja árið í röð, rokktónleikasýninguna Halloween Horror Show í samstarfi við Forte ehf. Fjöldi annarra þekktra flytjenda kemur fram ásamt Gretu og er sýningin frábær fyrir unnendur hrekkjavökunnar, búninga og rokksöngs.

 

„Sýningin hefur slegið í gegn síðustu tvö ár og greinilegt að Íslendingar voru tilbúnir fyrir eitthvað Halloween-tengt. Við erum líka með fleira en bara rokk og sem dæmi tökum við lög úr Rocky Horror og Litlu hryllingsbúðinni í klikkuðum búningi,“ segir Greta Salóme sem hefur yfirumsjón með sýningunni, auk þess að leikstýra henni og koma fram sjálf. Það er framleiðslufyrirtækið Forte ehf. sem stendur að sýningunni.

„Ég er með ótrúlega gott fólk með mér og á öllum vígstöðvum sem hefur hjálpað mér mikið með þessa klikkuðu hugmynd. Þar er systir mín fremst í flokki sem og fyrirtækið Swipe sem hafa unnið ótrúlega gott starf í þessu með mér,“ segir Greta.

Greta stendur þó ekki ein á sviðinu því með henni er valinn hópur listamanna. „Flytjendurnir í ár eru alveg trylltir í þetta „concept“ eins og ég. Við deilum náttúrlega öll tónlistaráhuganum en við veljum hvaða lag hentar hverjum og svo er farið í að finna útlit fyrir hvert lag þannig að allir flytjendurnir koma fram í mismunandi búningum og gervum,“ segir Greta. Flytjendurnir eru ásamt Gretu, Stebbi Jak, Andrea Gylfa, Svala, Magni, Dagur Sig, Ólafur Egill, Camilla Rut, auk bakradda, dansara, leikara og hljómsveitar.

Mynd / Aðsend

„Með allt of lítið hjarta fyrir hryllingsmyndir“

„Ég bjó í Bandaríkjunum þegar ég var að læra og elska Halloween-hátíðina. Svo eftir að ég setti upp sýninguna mína hjá Disney sá ég hvernig þeir tvinnuðu saman tónlist, tónleikum og Halloween og fannst skemmtilegt að taka það enn þá lengra og fara í þessa rokktónleikasýningu sem Halloween Horror show er. Ég hef alltaf verið mikil leikhúsmanneskja og þarna sameinast leikhús- og framleiðsluáhuginn og svo tónlistin,“ segir Greta. „Ég er með allt of lítið hjarta fyrir hryllingsmyndir en það eru alveg nokkrar sem standa upp úr. Ég man eftir að hafa séð myndina Signs þegar ég var svona 17 ára og ég held að ég hafi ekki sofið heila nótt síðan.“

- Auglýsing -
Mynd / Aðsend

Háskólabíó verður að allt öðrum heimi

Á sýningunni er öllu tjaldað til þegar kemur að búningum og segir Greta það í rauninni þess virði að koma bara til að sjá búningana. „Það sem er eiginlega geggjaðast við þessa sýningu er samt anddyrið. Það verður búið að skreyta það allt og alls konar verur á sveimi og fólk hefur haft orð á því hvað það hefur verið hissa á hvað það gekk inn í allt annan heim þegar það kom inn í anddyrið,“ segir Greta og bætir við að stemningin á tónleikunum hafi verið ólýsanleg.

„Magnað að sjá hvað margir hafa mætt í búningi og tekið þetta alla leið.“

„Fólk er svo tilbúið í þetta og hefur staðið stundum heilu sýningarnar í fílíng og sungið með lögunum. Það hefur líka verið magnað að sjá hvað margir hafa mætt í búningi og tekið þetta alla leið. En svo er auðvitað ekkert að því heldur að láta hina um búningana og koma bara og njóta. Við höfum fengið mjög margar fyrirspurnir í sambandi við börn og hvort þau megi koma. Við segjum alltaf það sama, að það sé algjörlega foreldra að meta það. Seinni sýningin er klukkan 23 þannig að það er kannski aðeins of seint fyrir lítil hjörtu.“

- Auglýsing -
Mynd / Aðsend

Tvær sýningar verða haldnar laugardaginn 26. október. „Það seldist hratt upp á sýninguna þannig að við höfum bætt við aukasýningu sama kvöld sem verður enn þá hryllilegri.“

Miðasala fer fram á tix.is.

Greta er núna stödd í Amsterdam á tónleikaferðalagi. „Ég var með tvenna stóra tónleika í Lindakirkju á laugardaginn og á fullu fyrir það og svo beint upp í vél og út að spila. Svona eru dagarnir mínir einhvern veginn allir og ég bíð alltaf eftir að það komi rólegur tími sem kemur svo aldrei. Ég verð með stór verkefni heima núna í nóvember og svo með mína eigin jólatónleika ásamt Daða Frey í Hlégarði og Akureyrarkirkju í desember auk þess að vera gestur hér og þar á öðrum jólatónleikum,“ segir Greta aðspurð um hvað tekur við eftir sýninguna. „Ég flýg síðan út til Bandaríkjanna rétt fyrir jól í samstarfsverkefni með American Ballet Theater og verð að syngja og spila þar yfir jólin. Þannig að það er bara meira en nóg fram undan.“

Mynd / Aðsend

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -