Alls nota 92 prósent landsmanna að minnsta kosti einn samfélagsmiðil og er Ísland þar með sú Evrópuþjóð sem er virkust á samfélagsmiðlum, að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag.
Samkvæmt tölfræðistofnun Evrópusambandsins, sem blaðið vísar í, hefur hlutfallið hækkað um eitt prósent frá því í fyrra. Er Ísland í efsta sæti í öllum aldurshópum, á aldursbilinu 24 til 65 ára.
Sérstaka athygli vekur mikil notkun eldri borgara á samfélagsmiðlum, en 74 prósenta virkni er í hópi 65 til 74 ára, á meðan meðaltalið er um 20 prósent í Evrópu. Þá þykir athyglisvert að íslenskra konur á miðjum aldri eru mun virkari en karlar á sama aldri.
Þess má geta að alls 98 prósent íslenskra ungmenna á aldrinum 16 til 24 ára nota samfélagsmiðla sem er sama hlutfall og víða annars staðar í Evrópu.
Norðmenn eru í öðru sæti yfir þær Evrópuþjóðir sem eru virkastar á samfélagsmiðlum, samkvæmt stofnuninni, með 86 prósenta virkni, en Ítalir og Frakkar neðstir með 42 prósenta virkni.