Íslenskur karlmaður var handtekinn á Spáni grunaður um kynferðisbrot gegn átta börnum undir lögaldri. Hann er sagður hafa tælt börnin með peningum og er sagður eiga dóma gegn fjórum börnum hér á landi fyrir kynferðisbrot sem nái allt aftur til ársins 1988. Maðurinn er 59 ára gamall.
Vísir greindi frá og vísaði í spænska fjölmiðla. Samkvæmt þeim býr maðurinn í bænum Torre Pacheco í Murcia-héraði á Spáni og hefur gert það frá síðasta sumri. Barnaníðingurinn meinti situr nú í fangelsi eftir að foreldrar tilkynntu til lögreglu að maðurinn hafi misnotað börn þeirra kynferðislega.
VIð handtöku fannst í fórum Íslendingsins klám- og barnaníðsefni, bæði í fartölvu hans og snjallsíma. Rannsókn lögreglu á brotum mannsins hefur náð til Interpol þar sem nú er kannað hvort hann hafi mögulega brotið af sér í nokkrum löndum S-Ameríku þar sem hann bjó undanfarin ár.