Samkvæmt frétt Costa News, var 46 ára Íslendingur stangaður af nauti í upphafi nautahlaups á götum strandbæjarins Jávea í Alicante-héraði á þriðjudaginn.
Nautið er sagt hafa stangað íslenska ferðamanninn í lærið en hornið hitti ekki á slagæð. Ekki er vitað um líðan mannsins.
En hvað er nautahlaup?
Þetta er viðburður þar sem nauti er sleppt á götur bæjarins, á meðan viðstaddir, aðallega ungt fólk, reyna að komast frá því og reyna á hugrekki sitt. Þessir viðburðir eru afar vinsælir en einnig mjög umdeildir enda hafa fjölmargir slasast og jafnvel látist í þessum hlaupum, þrátt fyrir öryggisráðstafanir. Þá hefur meðferðin á nautunum einnig verið gagnrýnd.