Í gærkvöldi komst Akureyringurinn, Birkir Blær Óðinsson, í úrslit sænsku Idol söngkeppninnar á TV4.
Keppnin er afar vinsæl í Svíþjóð og hafa margir af þekktustu söngvurum Svía tekið þátt í henni. Má þar meðal annars nefna Eurovision stjörnurnar Laureen, Måns Zelmerlöw og Tusse Chiza.
Óhætt er að segja að Birkir hafi unnið hug og hjörtu Svía og skal engan undra því hér er á ferð frábær listamaður.
Birkir er búsettur í Gautaborg, þar sem hann stundar tónsmíðar og upptökur. En fyrr á árinu gaf hann út sína fyrstu plötu, Patient, sem hægt er að hlusta á hér.
Mikil spenna fyrir norðan
Mikil spenna var í loftinu á veitingastaðnum Vamos á Akureyri í gærkvöldi, þangað sem fjölskylda og vinir Birkis fjölmenntu og fylgdust með sínum manni. Þar braust vitanlega út mikil gleði þegar kunngert var hverjir kæmust áfram í úrslit.
Faðir Birkis, Jón Óðinn Waage, pistlahöfundur með meiru er búsettur í Svíþjóð og var hann í salnum ásamt konu sinni og fleirum að styðja soninn.
Hér má hlusta á fyrri flutning Birkis í gærkvöldi, þar sem hann syngur lag Harry Style, Sign of the Times.
Og hér má hlusta á þann seinni, þar sem Birkir flytur lagið Are you gonna be my girl.
Það verður óneitanlega spennandi að fylgjast með úrslitum keppninnar næsta föstudagskvöld. Óskar Mannlíf Birki góðs gengis. Áfram Birkir Blær!