Íslensk knattspyrnukona í efstu deild greindist í dag með jákvætt sýni í COVID-19 sýnatöku. Hún kom til landsins 17. júní og reyndist sýnataka á landamærum neikvæð. Síðar kom í ljós að hún hafði verið í nánd við smitaðan einstakling erlendis og fór hún því aftur í sýnatöku. Sú sýnataka reyndist jákvæð, en knattspyrnukonan er einkennalaus.
Allir sem hafa verið útsettir fyrir smiti í samskiptum við hana síðastliðna tvo sólarhringa þurfa að fara í sóttkví í 14 daga. Smitrakning er í gangi en ljóst er að margir þurfa að fara í sóttkví. Málið er í vinnslu og frekari upplýsinga er að vænta á morgun.
Kemur þetta fram í tilkynningu frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Fótbolti.net greindi frá því að knattspyrnukonan sem um ræðir sé Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir.
Andrea kom inn á sem varamaður í deild Breiðabliks gegn Selfoss 18. júní og í leik gegn KR á þriðjudag. Liðsfélagar og þjálfarar hennar, sem og leikmenn og þjálfarar KR, þurfa nú að fara í tveggja vikna sóttkví.
433.is greinir frá því að Andrea hafi fengið fréttir af smituðum einstaklingi sem hún hafði umgengist í Bandaríkjunum, áður en hún kom heim til landsins og sýnataka var neikvæð, eins og áður segir.
Breiðablik vinnur nú í því að greina hverja Andrea hitti en markmannsþjálfari og styrktarþjálfari Breiðabliks starfa bæði með karla og kvennaliði félagsins. Möguleiki er á því að fjöldi starfsmanna og leikmanna í karlaliði Breiðabliks þurfi í sóttkví, en ljóst er að smitið setur efstu deild kvenna í uppnám.