Í nógu var að snúast hjá lögreglu, eins og svo oft áður.
Tilkynnt var um að bifreið hafi verið ekið á vegrið. Kona var handtekin á vettvangi, grunuð um akstur undir áhrifum vímuefna og fyrir að valda umferðarslysi. Munnvatnssýni hennar skimaðist jákvætt fyrir kókaíni. Dregið var blóðsýni úr konunni og hún síðan vistuð í fangageymslu. Bifreiðin skemmdist töluvert við áreksturinn og var dregin í burtu með dráttarbifreið.
Óskað var eftir aðstoð á öldurhús þar sem dyraverðir voru með mann í tökum; maðurinn reyndist hafa ráðist með ofbeldi á annan gest staðarins – en dyraverðir gripu inn í atburðarásina og stöðvuðu árásina. Maðurinn var vistaður í fangageymslu, en við öryggisleit á manninum fundust einnig fíkniefni, ætlað maríhúana.
Óskað var aðstoðar lögreglu á krá einni; þar hafði maður ráðist gegn öðrum. Var maðurinn í annarlegu ástandi sökum ölvunar; mjög æstur og árásargjarn. Taka þurfti hann lögreglutökum og handtaka þannig, en maðurinn streittist verulega gegn handtöku. Þá þurftu lögreglumenn að halda manninum, óðum af bræði og ölvun, á jörðinni á meðan beðið var eftir stærri lögreglubifreið svo flytja mætti manninn til vistunar í fangageymslu. Á lögreglustöðinni hélt hann uppteknum hætti, slóst og hamaðist uns hann var lokaður inni í fangaklefa. Persóna mannsins er óþekkt, enda hann ekki með skilríki meðferðis og svaraði ekki spurningum lögreglumanna um nafn.