Erla Bjarney Árnadóttir ráðgjafi segir að frá því hún muni eftir sér hafi tónlist spilað stórt hlutverk í lífi hennar. Oft sé hreinlega eins og tónlist stýri tilfinningaskalanum, þannig gefi hress lög henni orku á meðan rólegri lög veiti slökun. Helgarlisti Erlu tekur mið af þessu.
Föstudagur
„Við mæðginin fluttum til Windsor árið 2011 svo nú heyri ég sjaldnar íslensk lög í útvarpi. Þegar hugurinn leitar heim og þegar mig skortir orku finnst mér fátt betra en að leyfa íslenskum tónum að fljóta. Þá eru það lög eins og Hvar er draumurinn, Nína, Fjöllin hafa vakað, Gaggó Vest, Traustur vinur, Sigurjón digri, þjóðhátíðarlögin okkar og fleiri í þessum dúr sem koma með orkuna frá Íslandi. Íslensku lögin koma mér alltaf í gott föstudagsstuð.“
Laugardagur
„Á laugardegi er tilvalið að leyfa tónlist Bryan Adams hljóma. Frá því að ég heyrði plötuna hans Reclelss árið 1995 hef ég verið forfallin aðdáandi Bryan Adams og verð aldrei leið á honum. Þessi kanadíski tónlistarmaður verður bara betri og er ótrúlegur „performer“ á tónleikum. Summer of 69, Heaven og It´s only love eru sígild lög.“
Sunnudagur
„Mér finnst gott að eiga rólegan dag á sunnudegi. Tracy Chapman veitir fullkomna afslöppun á meðan maður fær sér morgunkaffi og fer yfir fréttirnar á Netinu. Fast Car, Talkin’ ’bout a Revolution og Baby can I hold you af plötunni Tracy Chapman eru kærkomin blanda á sunnudegi. Plata sem hljómaði oft á heima á Reyðarfirði. Eina sem vantar til að fullkomna mómentið eru kleinur frá Gurru frænku.“