Í lok nóvember á síðasta ári samþykkti matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, breytingu á reglugerð er varðar velferð alifugla. Þá var í annað sinn frestað ákvæði um að allar íslenskar hænur ættu að ganga lausar í varphúsum, en það átti að taka gildi 1. janúar 2022; var síðan frestað um ár, að beiðni Bændasamtakanna.
Bændasamtökin fóru svo aftur fram á frestun um annað ár.
Kemur fram á ruv.is að samkvæmt gögnum Matvælastofnunar, eru nú 35 varphús á landinu, þar sem leyfilegt er að halda eitthvað um 290 þúsund hænur; búrunum er staflað hverju ofan á annað, þar sem hver stök hæna hefur rými á við eitt A4 blað.
Matvælastofnun tilgreinir hins vegar að ekki sé víst að hænur séu í hverju búri og sums staðar séu bæði búr sem og lausar hænur.
Eggjabóndi sem á sæti í stjórn Bændasamtakanna segir að ekki hægt að kenna bændum alfarið um; ýmiss konar skipulagsmál tefji stærri bú, sem sum hver hafi orðið að bíða mjög lengi eftir umhverfismati; einnig hefur heimsfaraldurinn lengt bið eftir búnaði:
„Þetta er náttúrulega gífurleg fjárfesting. Við erum að tala um fyrir greinina í heild er þetta bara milljarða fjárfesting. Og þetta er í rauninni helmingsmeiri gólfflötur sem krafist er þegar verið er að fara úr búrum og á gólf,“ segir Halldóra Kristín Hauksdóttir, eggjabóndi og stjórnarmaður í Bændasamtökunum.
Einnig kemur fram að Evrópusambandsríkin hafi fengið 12 ár til að losa sig við búrin, en átta ár eru síðan þetta lá fyrir á Íslandi. Og að ráðuneytið hafi ekki fallist á kröfu bænda um aðra árs frestun; gefur þeim sex mánuði til að bregðast við:
„Það er farið fram á þessa sex mánuði auka til þess að fá að klára það og klára þessi skipulags mál. Og ég er bjartsýn á að sá tími muni duga“, sagði Halldóra.