Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Íslenskir bræður gera það gott í Hollandi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ný kvikmynd, Nocturne, sem tveir hálfíslenskir bræður koma að hefur hlotið frábærar viðtökur í Hollandi þar sem gagnrýnendur lofa hana í hástert. Leikstjórn er í höndum Viktors Bjarna van der Valk, sem hefur nú þegar fengið styrk til að gera aðra kvikmynd í fullri lengd, en bróðir hans, Vincent Kári, fer með aðalhlutverkið. Segjast þeir ekki getað annað en verið þakklátir fyrir þá jákvæðu dóma sem þeir hafa hlotið.

„Auðvitað er þetta mjög ánægjulegt,“ segir Viktor Bjarni, þakklátur fyrir þá jákvæðu gagnrýni sem hann hefur fengið fyrir mynd sína Nocturne. Gangrýnendur hafa verið ósparir á að ausa hana lofi og stjörnum og segja að leikstjórinn fari ekki þennan hefðbundna „mainstream“ veg, sem sé ánægjulegt að sjá í hollenskri kvikmyndagerð. Sjálfur tekur Viktor Bjarni undir að myndin sé ekki formúlukennd, enda hafi hún í raun ekki eiginlegan söguþráð. En um hvað fjallar hún? „Myndin gerist nóttina fyrir „deadline“ hjá leikstjóranum Alex, aðalpersónu myndarinnar, sem er nýhættur með kærustunni sinni,“ svarar hann. „Hún lýsir örvæntingu Alex og því sem er að brjótast um í kollinum á honum. Hann er að reyna að finna ballans milli þessara tveggja heima sem hann lifir í, ytri efnislega heimsins og þess sem gerist innra með honum. Myndin er því á mörkum hins raunverulega og óraunverulega.“

Viktor Bjarni bætir við að Nocturne sé í anda filme noir, eða rökkurmynda, þar sem tónlist, klipping og svarthvítar myndir leika stórt hlutverk. Myndin sé þó með gamansömu ívafi. Heitið Nocturne sé fengið úr tónlistarbókmenntum og merki næturljóð, yfirleitt með angurværum blæ og þó að ákveðin tilvísun sé í titilinn þá hafi kvikmyndin margar hliðar. „Hún er kómísk, dýnamísk og þar er líka allt sem þarf, byssur og konur,“ segir hann og hlær og vísar þar í orð frægs leikstjóra, Jean-Luc Godard, sem hann segir að hafi haft mikil áhrif á sig sem kvikmyndagerðarmann og gert að verkum hann fór að líta kvikmyndir öðrum augum en áður. „Godard velti fyrir sér af hverju kvikmyndagerðarlist sé svo oft sett í samhengi við „að segja sögu“ og af hverju við viljum að kvikmyndin segi hluti sem við krefjumst ekki af öðrum listgreinum eins og myndlist, tónlist eða ljóðlist,“ bendir hann á og segir að Nocturne segi ekki ákveðna sögu heldur lýsi tveimur heimum aðalpersónunnar, því sem gerist í huga hans og því sem er fyrir utan, því áþreifanlega.

Þekktir í Hollandi
Nocturne er fyrsta kvikmynd Viktors Bjarna í fullri lengd eftir útskrift úr námi í Hollandi, en hann lærði í Utrecht University for the Arts og síðar í The Netherlands Film Academy í Amsterdam. Áður hafði hann gert stuttmyndir, m.a. Stone (2013) og Onno the Oblivious (2014), sem fengu mjög góðar viðtökur á kvikmyndahátíðum víða um heim. Onno hlaut einnig verðlaun meðal annars sem framsæknasta myndin og tvenn peningaverðlaun, en fyrir þau ákvað Viktor Bjarni að hefjast handa við gerð Nocturne.

„Fólk segist sjá element sem séu íslensk í Nocturne,“ segir leikstjórinn Viktor Bjarni um mynd sína. Hann segist reyna að fylgjast með því sem er að gerast hér í kvikmyndun og nefnir bæði kvikmyndir og nöfn leikstjóra í því sambandi. Hann langar til að kvikmynda á Íslandi og segist stefna að því.

Eldri bróðir hans, Vincent Kári, sem fer með aðalhlutverkið í myndinni, eins og fyrr segir, er þegar orðinn þekktur leikari í Hollandi. En frá því að hann lauk námi frá hinum virta skóla Maastricht Theatre Academy árið 2010 hefur hann verið tilnefndur og unnið til nokkurra verðlauna fyrir leik sinn bæði í kvikmyndum og á leiksviði, og hefur auk þess samið leikverk. Hlutverkið í kvikmyndinni Nocturne var skrifað sérstaklega með hann í huga af Viktori Bjarna, og meðhöfundi handritsins að myndinni, Jeroen Scholten van Aschat. Vincent Kári segist aðeins hafa komið að þeirri vinnu.

„Þegar ég var krakki tók pabbi mig oft með sér á tónleika, en ég spilaði fótbolta lengi og langaði miklu frekar að vera á vellinum en nú er ég feginn, klassísk tónlist veitir mér bæði innblástur, virkjar hugmyndaflugið og þar með sköpun.“

„Ég fékk að vera með í ferlinu og gat þannig haft ákveðin áhrif á verkið, sem var mjög gaman,“ segir hann hress í bragði, en hann hefur, ekki síður en Viktor Bjarni fengið góða gagnrýni ytra fyrir frammistöðu sína í Nocturne. Sagður enn og aftur sanna hversu hæfileikaríkur leikari hann sé sem sýni ástríðu, mikla næmni og fleiri hliðar í leik sínum.

Koma úr listrænni fjölskyldu
Óhætt er að segja að bræðurnir eigi ekki langt að sækja listræna hæfileika sína því báðir foreldrar þeirra eru listamenn. Hlíf Svavarsdóttir, móðir þeirra, dansaði um langt árabil við Þjóðarballettinn í Amsterdam, þá var hún listdansstjóri Íslenska dansflokksins, auk þess sem hún var skólastjóri listaskóla í Arnheim en hún hefur einnig samið dansverk, m.a. fyrir Íslenska dansflokkinn og dansað víða um Evrópu. Faðir þeirra, Maarten van der Valk ásláttarhljóðfæraleikari, lék með Sinfóníuhljómsveit Íslands, hinni virtu Concertgebouw-hljómsveit í Amsterdam og hefur t.d. spilað með hljómsveitinni Mezzoforte og djazzhljómsveitum. Hann starfar með Orchestra of the Eighteen Century en Maarten hefur komið fram um allan heim og hefur spilað inn á vel yfir 80 geisladiska.

- Auglýsing -

Viktor Bjarni segir að það hafi haft mikil áhrif á sig að alast upp við list og sem dæmi veiti klassísk tónlist honum mestan innblástur í kvikmyndagerðinni. „Þegar ég var krakki tók pabbi mig oft með sér á tónleika, en ég spilaði fótbolta lengi og langaði miklu frekar að vera á vellinum en nú er ég feginn, klassísk tónlist veitir mér bæði innblástur, virkjar hugmyndaflugið og þar með sköpun,“ segir hann og bætir við að sér finnist líka gaman að leika sér með tungumálið, áherslur, hrynjandi o.fl. í kvikmyndun.

„Fólk segist sjá element sem séu íslensk í Nocturne.“

„Ég er rétt að byrja“
Nocturne hefur fengið góða dóma eins og áður sagði en þrátt fyrir það segist Viktor Bjarni vera langt frá því að gera fullkomið verk og það eigi heldur ekki að vera þannig. „Ég er rétt að byrja og vil gera ófullkomið verk í veruleika þar sem allt þarf að vera fullkomið. Það verður líka eitthvað að vera eftir fyrir mig að vinna með og þróa,“ útskýrir hann.

„Mér finnst oft að við mælum gæði kvikmynda í því hversu vel sagan er uppbyggð með listrænum hætti. En ég upplifi aldrei „lífið“ eins og þess háttar sögu og alls ekki eins og vel uppbyggða listræna sögu,“ segir hann og hlær. „Í hreinskilni sagt þá er lífið ekki þannig, það getur verið óreiðukennt þegar æskunni sleppir og fullorðinsárin taka við og maður uppgötvar að það sem maður lærði er allt annað en það sem maður upplifir. Þetta eru tveir ólíkir heimar. Þannig er allt síbreytilegt sem felur þá í sér að það að eitthvað sé fullkomið stenst ekki, því þá væri allt staðnað og enginn hreyfanleiki, þess vegna er allt ófullkomið.“

- Auglýsing -
Vincent Kári lærði í Kína og í The Circle in the Square Theatre School í New York. Hann sneri til Hollands aftur og lauk námi frá hinum virta skóla Maastricht Theatre Academy árið 2010. Hann er þegar orðinn þekktur leikari í Hollandi. Hefur verið að leika, vinnur að sjónvarpsþáttum sem kallast Dit Zijn Wij (This Is Us).

Vincent Kári tekur undir með bróður sínum. „Allt er túlkun á raunveruleikanum,“ segir hann. „Ég hef komist að því að hlutrænn veruleiki er varla til, allt er háð því hvernig fólk túlkar veruleikann og það er ekki hægt að aðskilja túlkandann frá því efni sem hann túlkar, þannig að þegar einhver túlkar veruleikann er sá hinn sami að búa til eitthvað eða skapa í leiðinni.“

Ætla sér frekara samstarf
Sú spurning hefur vitanlega komið oft upp hvort samstarf þeirra bræðra hafi gengið snurðulaust fyrir sig og hvernig það sé að vera leikstýrt af litla bróður. Þeir brosa báðir þegar blaðamaður spyr út í þetta og segja að þeir hafi ekkert krydd í þá sögu. Það hafi verið mjög gott að vinna saman og þeir eigi örugglega eftir að gera það einhvern tíma aftur. Það var óskrifað loforð þeirra beggja frá því að þeir voru guttar og Viktor Bjarni lék sér við stuttmyndagerð að þeir myndu gera fyrstu kvikmyndina í fullri lengd saman.
„Þetta er ekki síðasta myndin sem við vinnum saman,“ segir Vincent Kári og Viktor Bjarni tekur undir.

Hvort við Íslendingar fáum að berja myndina augum einhvern tíma í náinni framtíð svarar Viktor Bjarni því til að auðvitað væri það gaman og að einhverjir einstaklingar á Íslandi hafi haft á orði við hann að það þyrfti að koma því í kring.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -