Föstudagur 25. október, 2024
6.9 C
Reykjavik

Íslenskir dómarar á ofurkjörum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það kostar ríkiskassann hátt í sjö milljónir króna að halda uppi dómurum í námsleyfum sem þeir geta tekið út á fjögurra ára fresti. Á hverju ári vinna íslenskir dómarar sér inn rétt til þriggja vikna námsleyfis á fullum launum. Dómari í námsleyfi á þar að auki rétt á greiddum ferða- og dvalarkostnaði meðan á leyfi stendur, allt að 1,5 milljón króna í hvert sinn. Skiptar skoðanir eru um þennan ríkulega rétt dómaranna. Sumir eru þeirrar skoðunar að símenntun dómara sé nauðsynleg á meðan aðrir telja hana algjöran óþarfa.

Áslaug Björgvinsdóttir, lögmaður og fyrrverandi héraðsdómari. Mynd / Saga Sig

Núgildandi reglur um námsleyfi dómara tóku gildi í byrjun desember. Þar segir að dómari eigi rétt á launuðu námsleyfi á fjögurra ára fresti til að stunda endurmenntun, fyrst eftir fjögur ár í starfi. Dómari ávinnur sér þriggja vikna leyfi á hverju ári. Þó getur uppsafnaður réttur mest orðið sex mánuðir og greiðist ekki út við starfslok. Dómari heldur launum í námsleyfinu og fær þar að auki ferða- og dvalarkostnaðinn greiddan. Sá kostnaður má þó ekki fara yfir 1,5 milljón.

Jákvætt skref
Áslaug Björgvinsdóttir, lögmaður og fyrrverandi héraðsdómari, segir símenntun dómara nauðsynlega enda lögbundin og hluti af vinnuskyldum dómara. Það kostar sitt fyrir ríkið en að hennar mati er það óhjákvæmilegur kostnaður við rekstur dómstóla þar sem metnaður og fagleg gæði dómstarfa eru höfð að leiðarljósi.
„Það er lykilatriði fyrir réttaröryggi og sjálfstæði dómstóla að dómurum sé tryggð þjálfun og fræðsla til að gegna hlutverki sínu af fagmennsku, góðri lagaþekkingu og hlutleysi. Ef vel er á haldið og öflug eftirfylgni þá er þetta jákvætt skref.

Það verður að vera alveg skýrt að þessi leyfi þjóni hagsmunum réttarkerfisins. Í því sambandi væri vert skoðunar að auka gagnsæi um umsóknir og verkefni sem dómarar fá námsleyfi til,“ segir Áslaug.

Fínt viðmið

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, tekur í sama streng hvað mikilvægi endurmenntunar starfstétta varðar. Hann er ánægður að hafa nú í höndum viðmið um hvers sé nú hægt að krefjast fyrir verslunarfólk. „Mér finnst skipta máli að dómstig landsins séu eins hæf og upplýst og kostur er enda gerum við ríkar kröfur til dómstóla. Það skiptir sköpum að fólk nýti sér þá möguleika á endurmenntun sem býðst. Það er mjög mikilvægur þáttur sem við hjá VR styðjum og viljum auka. Við værum alveg til í svona flottan pakka eins og dómarar hafa og munum að sjálfsögðu nota þetta sem viðmið fyrir því sem við reynum að sækja,“ segir Ragnar Þór.

- Auglýsing -
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.

Fáir komust að

Ólöf Finnsdóttir, framkvæmdastjóri Dómstólasýslunnar, segir alla þurfa að endurhæfa sig í starfi og telur eftirlit nægjanlegt með þeim námsleyfum sem tekin eru. Aðspurð hefur hún ekki áhyggjur af misnotkun leyfanna og segir of litla reynslu komna á nýju reglurnar til að tjá sig um hvort réttindin séu hugsanlega of rífleg. „Ég er mikil talskona símenntunar. Hér áður voru færri en vildu sem komust að og það er mikilvægt að þetta hafi verið rýmkað í ljósi þess hversu dómararnir eru orðnir margir. Þá tel ég mjög jákvætt að nú geta dómarar farið oftar og styttra í leyfi,“ segir Ólöf.

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari. Mynd / Heiða Helgadóttir

Algjör óþarfi

- Auglýsing -

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari, telur námsleyfi dómara hér á landi algjöran óþarfa. Hann leggur áherslu á að lagalega sé ekkert athugavert við þessar settu reglur. „Reglur af þessu tagi voru ekki í gildi þegar ég var dómari og ég tel þær algjörlega óþarfar. Þetta veldur bara útgjöldum fyrir skattborgara. Samkvæmt minni reynslu er engin þörf fyrir þetta og væri réttast að afnema. Ég er búinn að lifa í lögfræðiheimi í hálfa öld og veit ekki betur en að menn hafi alveg komist af án reglna um námsleyfi. Þau ár sem ég var dómari sló ég aldrei feilhögg í dómsýslu þrátt fyrir að fá aldrei svona leyfi. Það væri nú þægð í því ef þeim tækist að berja þennan ósóma niður,“ segir Jón Steinar.

Fjallað er um málið í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -