Laugardagur 11. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Íslenskur brimbrettamaður í stórri þáttaseríu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Heiðar Logi Elíasson, fyrsti atvinnumaðurinn á brimbretti á Íslandi, og samstarfsmaður hans, Erlendur Þór Magnússon ljósmyndari, taka þátt í gerð seríu framleiddri af risaveldinu Red Bull.

„Það er að koma hingað erlent tökulið og það ætlar að fylgja okkur Ella eftir á för okkar um landið, þar sem við leitum uppi háar og kraftmiklar öldur á afviknum stöðum til að takast á við þær. Þetta verður svona „skyggnst á bak við tjöldin“ dæmi, viðtöl í bland við senur þar sem hreinlega allt getur gerst,“ segir brimbrettakappinn Heiðar Logi Elíasson kátur í bragði.

Hann og vinur hans og samstarfsfélagi til nokkurra ára, Erlendur Þór Magnússon ljósmyndari, hafa gert samning um að koma fram í annarri seríu af þáttunum Chasing the Shot sem beinir sjónum að ljósmyndurum sem leggja allt kapp á að ná hinni fullkomnu mynd af jaðaríþróttafólki – oft við erfiðar aðstæður. Fyrri serían var meðal annars tekin upp á Hawaii og Nýja-Sjálandi og hlaut góðar viðtökur en það er risaveldið Red Bull sem framleiðir þættina.

„Þetta er náttúrlega mjög flott verkefni. Ég meina, þetta er það sem okkur Ella hefur lengi dreymt um. Að gera okkar eigið „stöff“.“

Spurður um hvernig það hafi komið til að þeir félagar hafi verið fengnir til að koma fram í þáttunum segir Heiðar Logi hugmyndina hafa sprottið upp í samræðum sem hann átti við aðila innan Red Bull í fyrra. Hún hafi smám saman undið upp á sig og sé nú að verða að veruleika. „Þetta er náttúrlega mjög flott verkefni,“ segir hann, auðheyrilega spenntur. „Ég meina, þetta er það sem okkur Ella hefur lengi dreymt um. Að gera okkar eigið „stöff“.“

Í þeim stóru verkefnum sem þeir félagar hafi hingað til komið að hafi þeir meira verið hluti af teymi, eins og í nýlegri heimildamynd á Netflix sem kallast Under an Arctic Sky og fjallar bæði um þá og annað brimbrettafólk sem er að eltast við hina fullkomnu öldu. Í Chasing the Shot verði fókusinn hins vegar alfarið á þá. Auk þess hafi þeir miklu frjálsari hendur með efnistök. „Þannig að við ætlum að nota tækifærið og sýna allt sem við erum að bralla saman. Hluti sem við höfum aldrei sýnt á „vídeó“ áður. Fólk á eftir að fá alveg nýja sýn inn í það sem við erum að gera.“

Að sögn Heiðars er tökuliðið væntanlegt til landsins í febrúar og er áætlað að þættirnir verði aðgengilegir í sumar. Ekki sé búið að negla niður tökustaði að svo stöddu. Þeir ráðist af veðráttunni. „Við förum bara þangað sem stormarnir og háu öldurnar verða hverju sinni,“ segir hann hress.

Mynd: Heiðar Logi Elíasson hefur getið sér gott orð sem brimbrettamaður en hægt er að fylgjast með ævintýrum hans á bæði Snapchat og Instagram undir notendanafninu heidarlogi.

- Auglýsing -

Texti / Roald Eyvindsson
Mynd / Aldís Pálsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -