Hesturinn Hylur frá Flagbjarnarholti hlaut í gær hæsta dóm sem nokkur hestur hefur hlotið frá upphafi dóma. Þar var um að ræða svokallaðan sköpulagsdóm þar sem hann hlaut 9,09 í einkunn. Í aðaleinkunn hlaut Hylur 8,37.
Hylur var sýndur í gær á Sörlastöðum í Hafnarfirði en hann er undan Herkúles frá Ragnheiðarstöðum sem sigraði í tölti á Landsmóti hestamanna árið 2002 og Rás frá Ragnheiðarstöðum. Hann er fæddur árið 2013 og er því sjö vetra gamall. Frá þessu var greint í Eiðfaxa þar sem sýnandi Hyls var tekinn tali. ,,Þetta er óvenjulegur hestur að mörgu leyti og á fáa sína líka hvað sköpulagið varðar, ákaflega tignarlegur, tinnusvartur og glæsilegur. Þá er þetta einnig snilldarhestur á gangi sem á ennþá mikið inni að mínu mati. Þetta er skemmtilegur karakter ákaflega mjúkgengur á tölti og þá eru gangskilinn í honum frábær og allar gangtegundir eru jafnar og góðar,“ segir Guðmar Þór Pétursson.