Íslendingur á þrítugsaldri var handtekinn í Pensacola í Flórída á mánudaginn og er hann grunaður um að hafa skotið mann til bana er fram kemur í frétt mbl. Þar er vísað í frétt Pensacola News Journal þar sem maðurinn nafngreindur sem Stefan Phillip Gislason.
Stefan Phillip Gislason, 28 ára, er sagður grunaður um að hafa orðið 32 ára manni, Dillon Shanks, að bana. Lík Shanks fannst aðfararnótt mánudags á heimili í Pensacola í Flórída. Stefan mun hafa haft samband við lögreglu og sagt að sá látni hefði framið sjálfsvíg.
Vitni hafa verið tekin í skýrslutöku hjá lögreglu, sem telur að um morð hafi verið að ræða en ekki sjálfsvíg. Var Stefan handtekinn í kjölfarið.
Í frétt Pensacola News Journal segir að vitni hafi séð mennina rífast fyrir andlát Shanks. Hann og Stefan hafi farið inn í húsið og skömmu síðar hafi heyrst skothvellur innan úr húsinu.