Stjórnvöld í Ísrael hafa ákveðið að heimila tveimur bandarískum þingkonum ekki inngöngu í landið. Þessar sömu þingkonur hafa orðið fyrir rasískum árásum af hendi Donalds Trump.
Þingkonurnar, Rashida Tlaib og Ilhan Omar, áttu að lenda í Ísrael á morgun. Áður höfðu ísraelsk stjórnvöld gefið út að þær myndu fá inngöngu inn í landið en nú síðdegis var greint frá því að það leyfi hafi verið afturkallað. Í millitíðinni hafði Donald Trump úthúðað þingkonunum á Twitter, sagt þær hata gyðinga og Ísrael og að ísraelsk stjórnvöld sýndu veikleikamerki með því að leyfa heimsókina.
It would show great weakness if Israel allowed Rep. Omar and Rep.Tlaib to visit. They hate Israel & all Jewish people, & there is nothing that can be said or done to change their minds. Minnesota and Michigan will have a hard time putting them back in office. They are a disgrace!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) August 15, 2019
Þær Tlaib og Omar voru á meðal þeirra fjögurra þingkvenna sem Trump hvatti til að fara aftur til síns heima ef þeim líkaði ekki við ástandið í Bandaríkjunum. Báðar eru þær bandarískir ríkisborgarar. Árásir Trump voru fordæmdar og þær sagðar opinbera djúpstæða kynþáttafordóma forsetans.
Ekki hefur verið gert opinbert hver það var sem tók ákvörðunina um að koma í veg fyrir heimsóknina. Þær hafa báðar lýst yfir stuðningi við BDS hreyfinguna svokölluðu sem kalla eftir sniðgöngu á ísraelskum vörum vegna framgöngu Ísraels gagnvart Palestínu. Í lögum Ísraels er heimilt að meina þeim sem styðja hreyfinguna inngöngu í landið en erindrekar og stjórnmálamenn fá alla jafna undanþágu.