Júlían J.K. Jóhannsson, kraftlyftingamaður og íþróttamaður ársins 2019, byrjaði nýlega á Twitter. Júlían, sem á heimsmet í sínum þyngdarflokki í réttstöðulyftu, gefur nú góð æfingarráð á Twitter.
Í einu tvítinu segir hann almenna umræðu um líkamsrækt oft vera óþarflega flókna. „Stór hluti af almennri umræðu um æfingar snýst um að drekkja umræðunni í óþarflega flóknum lýsingum,“ skrifar hann meðal annars og bætir við að í raun sé lykillinn að velgengni vera nokkuð einfaldan. „Í grunninn er þetta; æfa vel í langan tíma = árangur,“ segir hann.
Júlían bendir þá í einni færslu á að ekki sé sérlega vænlegt til vinnings að einbeita sér alfarið að því að lyfta þungt. „Léttar æfingar og að einbeita sér að hraða eru góðir punktar líka,“ skrifar hann.
Og meira að segja íþróttamaður ársins nennir stundum ekki að hanga í ræktinni. „Fyrir sumar æfingar er maður svo spenntur að þær renna bara ‘áreynslulaust’. Svo eru það hinar æfingarnar: þar sem maður þarf að ljúga að sér stanslaust, bara eitt sett enn, bara ein endurtekning í viðbót – og svo ertu búinn.“
Hann bætir við: „Og það er allt í lagi, stundum er þetta bara svona.“
Ef þú lyftir alltaf þungt, lyftiru aldrei þungt. Léttar æfingar og að einbeita sér að hraða eru góðir punktar líka.
— Júlían J.K.J. (@JkjJulian) February 12, 2020
Stór hluti af almennri umræðu um æfingar snýst um að drekkja umræðunni í óþarflega flóknum lýsingum og latneskum heitum eða hugtökum úr nýbirtum rannsóknum sem eru í raun bara endurunnar upp úr sovéskum æfingakerfum. Í grunninn er þetta; æfa vel í langan tíma = árangur.
— Júlían J.K.J. (@JkjJulian) February 11, 2020