„Leikfélagið Óríon er fyrir alla þá sem hafa áhuga á leiklist og vinnuna í kringum hana. Allir hjálpast að, þeir reyndari hjálpa og styðja reynsluminni meðlimina,” segir Eygló Ýr Hrafnsdóttir, markaðsstjóri leikfélagsins Óríon.
Leikfélagið var stofnað árið 2012 af hópi ungmenna sem vildu stunda leiklist utan veggja menntaskóla. Fyrsta sýning félagsins, Hvað helduru að ég sé?, var sett upp í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði í kjölfar stofnunar hópsins, en höfundur þess var Anna Íris Pétursdóttir, leikstjóri, sem jafnframt er ein af stofnendum hópsins. Síðan þá hefur Óríón sett upp að minnsta kosti eina sýningu á ári og hafa þær allar átt það sameiginlegt að vera verk eftir skapandi ungmenni.
Hinsegin karakterar ekki nógu sýnilegir
Eygló segir að hópurinn hafi tekið þá ákvörðun fyrir stuttu að leggja ríka áherslu á að fjalla um jaðarhópa í samfélaginu sem oft gleymast í hefðbundnu leikhúsi og í fjölmiðlum.
„Þetta er stefna sem hefur alltaf einkennt hópinn en í ár tókum við þá ákvörðun að gera hana að opinberu leiðarljósi félagsins. Ástæðan fyrir þessu er að hinsegin karakterar eru alls ekki nógu sýnilegir í nútíma leikhúsi. Þegar þeir koma fram er það oftast samkynheigður cis karlmaður, iðjulega byggður á staðalímyndum, auk þess að sýnileiki annarra lita regnbogans er ekki nærri því eins mikill,” segir Eygló, en lýsingarorðið cis, eða sís, er notað um fólk sem upplifir sig á þann hátt að það tilheyri því kyni sem því var úthlutað við fæðingu.
„Okkur finnst líka vanta að það sé venjulegt að vera hinsegin á sviði,” bætir Eygló við. „Að karakter sé á einhvern hátt hinsegin getur bara verið partur af karakternum, en ekki endileg aðalatriðið. Gott dæmi er þegar við vorum að vinna með sýningu um barn sem átti venjulegustu, og leiðinlegustu í augum barnsins, foreldra í heimi, en ákvörðun var tekin um að það væru tveir feður. Þetta er eitthvað sem fólk yfir höfuð pælir kannski ekki mikið í,” segir hún. Þá segir hún einnig að hópurinn hafi í fyrsta sinn íslenskra leikhópa verið með eikynhneigða persónu á sviði, í leikritinu Leigumorðið, sem er nýjasta verk Óríon sem sett var upp fyrir stuttu. Hugtakið eikynhneigð er notað til að lýsa fólki sem laðast aldrei, eða nær aldrei, kynferðislega að öðru fólki.
Ekki skilyrði að vera hinsegin
Eygló segir að margir innan hópsins séu á einhvern hátt hinsegin og því séu heimatökin hæg þegar fjalla á um hópana undir LGBTIQ+ regnhlífinni.
„Innan okkar raða er fólk alls staðar að úr regnboganum; lesbíur, pansexual, BDSM-hneigðir, fjölkærir og fleiri. Þá sjáum við vel hvar mætti gera betur í þessum efnum. Það er samt ekkert skilyrði að vera hinsegin til að vera í leikfélaginu. Við erum líka með cis gagnkynhneigt fólk í hópnum, sem er ekkert verra fyrir það.”
Telur Eygló það þarft að fjalla um þessa jaðarhópa á leiksviðinu?
„Það er mjög mikilvægt að fjalla um jaðarhópa. Því meira sem fjallað er um þá einstaklinga sem þykja afbrigðilegir, ekki bara vegna kynhneigðar sinnar heldur af hvaða ástæðu sem er, og sýna þá í sem venjulegasta ljósi, því minni eru fordómarnir og meiri skilningur. Fordómar eiga oft rætur í þekkingarleysi, jafnvel hræðslu, sem á sér upptök í fáfræði. Listafólk hefur gríðarleg áhrif á menninguna og þar með samfélagið. Við höfum tækifæri til að sýna fólki annan heim, heim sem það þekkir ekki endilega, en er daglegt brauð fyrir svo marga. Margir telja sig þekkja til, en sjá eitthvað nýtt í okkar verkum eða eitthvað gamalt í nýju ljósi og átta sig þá kannski betur á hlutunum,” segir Eygló.
Opin fyrir alls konar möguleikum
Leikhópurinn Óríon er opinn öllum sem hafa áhuga á einhvers konar vinnu í leikhúsi og segir Eygló að meðlimir leikfélagsins fagni því að sjá ný andlit. Meðlimir hópsins eru á aldrinum 16 til 30 ára, en Eygló segir að áhugasamir þurfi að vera búnir að ná 14 ára aldri til að spreyta sig í félagsskapnum. Hópurinn er byrjaður að undirbúa nýtt verkefni og er lögð mikil áhersla á að allir meðlimir fái að láta ljós sitt skína.
„Markmiðið er að koma að minnsta kosti einu verkefni í gang á hverju leikári þar sem allir geta fengið að spreyta sig og taka þátt. Við erum opin fyrir alls konar möguleikum í leikhúsi og leggjum áherslu á að gefa leikurum, leikstjórum, tónsmiðum og höfundum, sem ekki endilega hafa auðvelda leið að leikhúsi, séns á að sanna sig. Þar með eru verkin okkar oftast frumsamin. Við erum byrjuð að undirbúa næsta verkefni, en það byrjaði á sumarnámskeiði. Við getum ekki látið neitt nákvæmt í ljós eins og er, en markmiðið er að setja upp sýningu sem hópurinn ákveður í samstarfi við leiðbeinendur og leikstjóra, hvort sem það verður eftir handriti eða samið af hópnum,” segir Eygló.
Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér hópinn betur er bent á Facebook-síðu hópsins. Einnig er hægt að senda tölvupóst á netfangið [email protected].