Jakob Frímann Magnússon, Stuðmaður og nýkjörinn þingmaður Flokks fólksins, sendi út ákall í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Ákallið snýr að þeim sem minnst mega sín í íslensku samfélagi.
„Sagt er að þolinmæði sé dyggð. Sú speki er þó ekki algild. Meðan unnið er í makindum að myndun nýrrar ríkisstjórnar bíða hinir verst settu í samfélaginu í ofvæni eftir réttlætinu,“ segir Jakob Frímann í upphafsorðum sínum.
Segir hann það sorlegt hve margir þurfi að herða sultarólina, búandi við sára fátækt.
„Það er sorglegt hve margir á Íslandi búa við sára fátækt. Þeirra á meðal er gamalt fólk sem er nauðugur einn kostur að velja á milli þess hvort það kaupir sér mat eða lífsnauðsynleg lyf, einstæðir foreldrar sem þurfa að vega og meta hvort þeir hafa efni á því að greiða orkureikninginn eða fara til tannlæknis og veikt fólk sem missir smám saman alla von í því kviksyndi fátæktarinnar sem íslenska kerfið er.“
Þá talar hann einnig um börnin í grein sinni og segir þau einnig vera fórnarlömb fátæktar því foreldrar þeirra hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til að leyfa börnunum að stunda íþróttir eða sinna öðrum áhugamálum. „Áætlað er að 10% íslenskra barna búi á heimilum þar sem tekjur eru undir lágtekjumörkum.“
Jakob Frímann segir að Flokkur fólksins telji það eðlilega körfu að lágmarksframfærsla sé 350.000 krónur á mánuði og það skatta- og skerðingalaust. „Sem dæmi má nefna að neysluviðmið umboðsmanns skuldara gerir ráð fyrir því að barnlaus einstaklingur þurfi 180.000 kr. á mánuði til að greiða fyrir helstu grunnþarfir og að undanskildum húsnæðiskostnaði. Ef við gerum ráð fyrir hóflegum húsnæðiskostnaði og einnig tengdum útgjöldum, rafmagni, hita, hússjóði og tryggingum, má áætla að það þurfi að minnsta kosti 300.000 krónur í ráðstöfunartekjur til að ná endum saman. Slíkar tekjur duga samt ekki til að mæta óvæntum útgjöldum. Það er því nauðsynlegt að tryggja fólki 350.000 kr. lágmarksframfærslu.“
Telur hann að þríeykið sem nú reynir að setja saman starfhæfa ríkisstjórn, hljóti að taka undir kröfur Flokks fólksins um mannsæmandi kjör allra Íslendinga. Vitnar hann í orð Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands frá því fyrir nokkrum árum þegar hún var í stjórnarandstöðu, en orðin eru að margra mati birtingarmynd innihaldsleysis loforða íslenskra stjórnmálamanna. „Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu.“ Þá vitnar hann einnig í orð Bjarna Ben frá síðasta vori er hann sagði að það væru „alltof margir sem ekki ná endum saman í íslensku samfélagi.“
Vonar Jakob í lok pistilsins að komandi ríkisstjórn leggi Flokk fólksins liðs við að frelsa tugþúsundir Íslendinga úr „fjötrum fátækar“
Hér má sjá greinina í heild sinni: Forgangsmálið í stjórnarmyndun