Jakob Frímann Magnússon, tónlistarmaður og miðborgarstjóri, fer fögrum orðum um Jón Baldvin Hannibalsson í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Greinina skrifar hann í tilefni þess að Jón Baldvin er 80 ára í dag.
Í grein sinni lýsri Jakob Jóni sem leiftrandi greindum og skemmtilegum. Það er því ljóst að Jakob lætur umræðu undanfarinna vikna, um kynferðislega áreitni Jóns, ekki stoppa sig í að birta lofræðu um vin sinn.
„Í dag er áttræður vinur minn og samferðamaður um langa hríð, Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi sjómaður, kennari, skólameistari, ritstjóri, formaður Alþýðuflokksins, fjármálaráðherra, utanríkisráðherra og sendiherra Íslands í Washington og Helsinki.
Fáa menn veit ég jafn leiftrandi greinda, litríka og skemmtilega. Sannarlega öngvan er lagt hefur jafngjörva hönd á að skapa forsendur hins auðuga íslenska velferðarsamfélags sem aldrei hefur staðið í jafnmiklum blóma og einmitt nú. Þökk sé ötulli og einbeittri baráttu hans fyrir þeim kostakjörum sem inngangan í EES, Evrópska efnahagssvæðið, færði okkur um miðjan tíunda áratug síðustu aldar,“ skrifar Jakob meðal annars.
Sjá einnig: Sterkari viðbrögð við ásökunum – í krafti fjöldans
Sjá einnig: „Hann snerti mig afar ákveðið, glotti og hló“