Fimmtudagur 16. janúar, 2025
4.8 C
Reykjavik

Jakob Frímann kominn á þing og Stuðmenn lifa: „Tónleikar í Sýrlandi ekki slegnir út af borðinu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Inga Sæland hafði samband við mig í júlílok og bað mig um að taka þátt í þessu. Þá var Tómas Tómasson búinn að lýsa stuðningi og ákvað að fara með henni. Ég afþakkaði þetta í fyrstu en hún tók það ekki sem gilt svar. Hún heimtaði að ég kæmi í kaffi og heilsaði upp á sig,“ segir Jakob Frímann Magnússon sem hugsaði málið eftir að hafa hitt Ingu, fór í framboð og er nú réttkjörinn þingmaður Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi. Tónlistarmaðurinn, Stuðmaðurinn og alþingismaðurinn er í viðtali í Mannlífinu með Reyni og snýst það að mestu um hljómsveitina vinsælu, Stuðmenn, sem hefur skemmt landanum í áratugi og mun væntanlega gera um ókomna tíð.

Fé ber á góma og koma Stuðmenn einmitt inn í þær pælingar.

„Ég fæddist inn í aðstæður sem voru tiltölulega áhyggjulausar og síðan varð til hljómsveit sem sá um mann, það er að segja Stuðmenn, og gerði það bara ágætt á þessum íslenska markaði, náði að fara til ýmissa heimsálfa og þjóðlanda auk þess að gera kvikmyndir, bækur og sitthvað fleira. En ég er langt frá því að vera ríkur maður eða eignamaður. Ég hef haft nóg til hnífs og skeiðar. Það er ekkert sem segir það að þeir sem leggjast á sveifinn með Flokki fólksins þurfi að vera úr fátækustu lögum samfélagsins. Það var kannski frekar horft til þess að maður hafi náð fram góðum málum fyrir hönd þeirra sem maður hefur barist fyrir og það var kannski fyrst og fremst það sem Inga var að höfða til þegar hún kallaði mig til sín.“

Ég hef haft nóg til hnífs og skeiðar. Það er ekkert sem segir það að þeir sem leggjast á sveifina með Flokki fólksins þurfi að vera úr fátækustu lögum samfélagsins.

Inga Sæland hafði samband við mig í júlílok og bað mig um að taka þátt í þessu.

Sló aðsóknarmet

Jakob Frímann segir að varðandi Stuðmenn þá hafi aldrei verið lagt af stað með einhverja „gróðamótívasjón“ í þeim hópi. „Ég held að í því hafi falist ákveðin blessun að þar hefur almennt bara verið látið flæða og allar hugmyndir fengið að njóta sannmælis og jafnan verið „inkorperaðar“ í það sem hefur verið gert hverju sinni. Sumir kunna að telja að svoleiðis ætti alls ekki að gera hlutina. Það er ekkert launungamál að við erum af þeirri kynslóð sem var mjög innblásin af bresku Bítlunum og þeir voru þannig hljómsveit að það ægði saman af alls kyns lögum af ýmsum stefnum; þungarokkslag hér, kántrílag næst og svo kannski ballaða. Og það fékk allt faglega meðhöndlun í hljóðveri og útsetningum og úr varð ofsalega skrautleg og falleg heildarmynd.“

Tónlistar- og grínmyndin Með allt á hreinu, sem var frumsýnd árið 1982, fjallar um hljómsveitirnar Stuðmenn og Gærurnar og á meðal viðfangsefna er ástin, afbrýðisemin og einkum þó kapphlaup kynjanna. Aðsóknarmet var slegið í kvikmyndahúsum á landinu. „Um 120.000 manns sáu myndina á frumsýningarári. Það met verður held ég aldrei slegið á Íslandi né neinu öðru landi miðað við höfðatölu. Aðstæður allar hafa gjörbreyst á upplifunar- og afþreyingarmarkaðinum .“

Um 120.000 manns sáu myndina á frumsýningarári.

- Auglýsing -

Kvikmyndin Hvítir mávar var svo frumsýnd þremur árum síðar. Jakob Frímann segir að Stuðmenn hafi gert ráð fyrir að um 55.000 manns myndu sjá þá mynd en raunin varð önnur: Um 35.000 manns mættu í kvikmyndahús til að horfa sem þýddi umtalsvert tap sem varð að mæta með einhverjum hætti, til að mynda auglýsingagerð „Ég bretti upp ermar og gerði til dæmis öll kynningarstefin fyrir hina nýstofnuðu Stöð 2, sömuleiðis Bylgjuna, Rás 2, fréttastef Ríkisútvarpsins og síðan um 80% af öllum þeim auglýsingalögum sem hljómuðu í útvarpi í kjölfarið: Toyota-lagið, Úrval-Útsýnar-lagið, Hörpu-lagið  og fleiri slík. Þetta varð til þess að maður náði að ganga frá öllum skuldum en ég var svoleiðis kominn með upp í kok að syngja um sápur, utanlandsferðir eða bíla að ég sagði mig frá öllu slíku og hef sem minnst komið nálægt því síðan.“

Jakob Frímann segir að Hvítir mávar sé umdeild mynd. „Menn héldu að við værum að fara að gera Með allt á hreinu númer 2 en það var engin stemmning í hópnum fyrir því að endurtaka sömu formúlu. Með allt á hreinu er langt frá því að vera fullkomin mynd; þar gildir það sama og um önnur mannanna verk. Þarna voru algjörir nýgræðingar og amatörar að gera bíómynd og spinna nánast á staðnum og það var bara orka, gleði og húmor sem var leiðarljósið. Hvítir mávar er á engan hátt fullkomin mynd heldur en hún er sönn. Hún er byggð á sönnu íslensku  fjölskyldudrama í kaldastríðsástandi sem aldrei mátti ræða. Undirtónninn í þeirri mynd – geislatilraunir Bandaríkjamanna austur á Fjörðum – vísar auðvitað í það að hér voru geymd hættuleg vopn sem enginn vildi né mátti viðurkenna.“

Með allt á hreinu er langt frá því að vera fullkomin mynd; þar gildir það sama og um önnur mannanna verk.

Svo var gerð framhaldsmynd af Með allt á hreinu, Í takt við tímann, sem var frumsýnd árið 2004. „Útgangspunkturinn í fyrri myndinni var gömul hljómsveit sem var að niðurlotum komin í upphafi hinnar femínísku byltingar. 22 árum síðar er þetta allt orðið þeim mun grátbroslegra, súrara og skrýtnara eins og gefur að skilja.“

- Auglýsing -
Það er ekkert launungamál að við erum af þeirri kynslóð sem var mjög innblásin af bresku Bítlunum og þeir voru þannig hljómsveit að það ægði saman af alls kyns lögum af ýmsum stefnum; þungarokkslag hér, kántrílag næst og svo kannski ballaða.

Aldrei

52 ár. Jú, Stuðmenn hafa starfað í 52 ár. Hefur hrykt í hljómsveitinni?

„Jú, það hefur svo sum gerst, rétt eins og getur gerst í öllum sambærilegum hópum. Meðallíftími hljómsveita er tvö til þrjú ár. Þetta er í okkar tilfelli búinn að vera langur tími og viðvera með bæði kostum og göllum. Þegar menn verða ungir jafnafgerandi höfundar, hugmyndasmiðir og flytjendur eins og raunin varð í Stuðmönnum þá gerist það jafnan eftir því sem menn eldast og vaxa upp að það þróast með mönnum mismikil löngun til þess að setja verk sín í púlíu og láta hræra í og þróa en í slíku samstarfi getur hins vegar falist ansi mikill galdur. Enn og aftur vísa ég til John Lennon og Paul McCartney sem báru gæfu til þess að styrkja lög hvors annars í sínu samstarfi, framan af að minnsta kosti.  Það gat verið ansi tímafrekt og krefjandi að vera í Stuðmönnum og ósköp eðlilegt að sumum hafi fundist nóg um og viljað huga meira að sínum eigin verkum.“

Þetta er í okkar tilfelli búinn að vera langur tími og viðvera með bæði kostum og göllum.

Jakob Frímann er spurður hvort hann hafi aldrei haldið að þetta væri bara búið.

„Aldrei.“

Valgeir Guðjónsson yfirgaf hljómsveitina árið 1986.

„Svo mætti hann á Þjóðleikhústónleika árið 2004 – sat úti í sal með móður sinni. Við vissum ekki að hann væri að koma en buðum honum að koma upp og taka lagið með okkur. Hann var hikandi en sló til. Móðir hans felldi tár af gleði. Þetta var falleg stund.

Það þróaðist í það að við buðum honum að koma aftur og hann þáði það með þökkum. Hann hefur að mestu verið með okkur síðan. En það er með hann eins og aðra – hann hefur ýmsu öðru að sinna eins og gengur. Á einhverjum tímapunkti kvaddi Egill tímabundið en sneri fljótlega aftur.“

Ýmsir tónlistmenn hafa gengið í og úr hljómsveitinni eins og gengur svo sem Ragnhildur Gísladóttir, fyrrverandi eiginkona Jakobs Frímanns, dóttir þeirra, Bryndís og nú síðast Þórður Árnason gítarleikari.

Er gleði í bandinu í dag?

„Já, það er óskaplega gaman að spila með þessari hljómsveit eins og hún er skipuð í dag, með þessa stjörnusöngvara og svo þessa ofboðslega flinku hljóðfæraleikara.“

Jakob Frímann er spurður um mesta floppið tengt hljómsveitinni.

„Það var búið að spila víða, meðal annars í Bretlandi, Norðurlöndunum, Rússlandi og Kína og þá kom þessi hugmynd að efna til stórtónleika um sumar í Sýrlandi. Jóhanna Kristjónsdóttur var búin að skipuleggja tvenna tónleika, bæði í tónleikahöllinni og í óperuhúsinu í Damaskus og það átti að fara vél með fullt af farþegum frá Íslandi og margir búnir að skrá sig. Þá brást á með leiðindum í Jyllandsposten,“ segir Jakob Frímann og á við skopmynd af Múhameð spámanni sem birtist í blaðinu árið 2005 sem olli víða uppnámi. „Það var byrjað að brenna danska fánann á götum úti og allt fór í uppnám í landinu. Svo magnaðist þetta allt saman og endaði með hörmungarástandi sem er búið að vera viðvarandi í allt of langan tíma og ekki sér fyrir endann á því miður. Tónleikar í Sýrlandi hafa þó alls ekki verið slegnir út af borðinu þó langur tími sé liðinn“.

Jú, Stuðmenn eru augljóslega enn í fullu fjöri og Jakob Frímanner spurður hvort hann ætli nokkuð að vanrækja Stuðmenn þrátt fyrir vaxandi annir.

„Alls ekki!“

„Já, það er óskaplega gaman að spila með þessari hljómsveit eins og hún er skipuð í dag, með þessa stjörnusöngvara og svo þessa ofboðslega flinku hljóðfæraleikara.“

Mannlífið með Reyni er að finna hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -