Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.8 C
Reykjavik

Janice Arnason, fjallkona ársins 2022 í Kanada: Íslenskar rætur fjallkonunnar vestra eru sterkar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kona í gervi fjallkonunnar kom fyrst fram á Íslendingadeginum í Winnipeg í Kanada árið 1924 en hins vegar var fyrsti Íslendingadagurinn haldinn í Winnipeg árið 1890. Frá árinu 1934 hefur Íslendingadagurinn hins vegar verið haldinn hátíðlegur í Gimli. Janice Árnason var þar nýlega valin fjallkona ársins 2022. Hún er í raun og sann íslensk í húð og hár sem og eiginmaður hennar, Cameron Arnason, en bæði eru afkomendur Íslendinga sem fluttu búferlum vestur um haf á sínum tíma.

Búningur fjallkonunnar íslensku í Kanada er skírskotun í Ísland. Hvíti kjóllinn jöklarnir og græna skikkjan sveitin. Höfuðbúnaðurinn snæviþakin fjöllin og í kórónunni er skjaldarmerkið. Fjallkona er útnefnd árlega þar vestra og er þá kona valin sem hefur verið í tengslum við Ísland og frætt aðra um sögu forfeðranna á Íslandi og viðhaldið íslenskri menningu og þjóðararfi. „Margt hefur breyst í áranna rás en að viðhalda menningu og þjóðararfi Íslands hefur alltaf verið í forgangi. Andi Íslands lifir hér. Við sýnum hugrekki forfeðra okkar virðingu; þeirra sem fluttu frá Íslandi sem var landið sem þeir elskuðu til að fara annað þar sem þeim fannst að næstu kynslóðir gætu blómstrað meira. Það er heiður fyrir mig að vera í hlutverki fjallkonunnar í ár.“

Janice Arnason
(Mynd: The Icelandic Festival of Manitoba; „Islendingadagurinn“.)

Skyr, lifrarpylsa, hangikjöt og rúllupylsa

„Ég er afkomandi fyrstu og annarrar kynslóða íslenskra innflytjenda. Móðir mín, Guðný Johnson Narfason, var dóttir Guðríðar Böðvarsdóttur sem eftir að hafa misst föður sinn kom til Nýja Íslands ásamt tveimur systur sínum árið 1914 og settist að í Húsafelli rétt hjá Riverton með afa mínum, Bjarna Jónssyni. Afkomendur ömmu Guddu og Bjarna afa búa enn á Húsafelli. Guðríður fæddist á Akranesi og flutti síðar til Hafnarfjarðar eftir að móðir hennar, Alfífa Halldórsdóttir, lést. Langafi, Böðvar Jónsson, drukknaði ásamt syni sínum þegar þilskipið Geir fórst árið 1912.

Pabbi, Óli Narfason, er sonur Guðmundar Erlends og Guðrúnar Ísfeld Narfason sem voru bændur á Víðivöllum í Minerva á landi þar sem langafi minn, Magnús, hóf búskap ásamt konu sinni, Emmerentiana, árið 1897. Langafi minn, Magnús Narfason, var frá Traðarkoti á Vatnsleysuströnd og langamma mín, Emmerentiana, var frá Skammadal skammt frá Vík.“

Janice Arnason
White Rock þar sem margir íslenskir landnemar komu að árið 1875.

Janice segir að í æsku hafi íslensk menning og arfleifð verið ríkjandi á heimilinu. „Mamma og pabbi höfðu talað íslensku sem fyrsta mál þar til þau fóru í skóla. Það leið ekki sá dagur sem ég heyrði ekki íslensku talaða á heimilinu og töluðu mamma, pabbi og ömmur mínar og afar saman á íslensku. Skyr, lifrarpylsa, hangikjöt og rúllupylsa voru alltaf til og pönnukökur, kleinur og vínarterta voru uppáhaldssætabrauðin.“

Við lærðum íslensk þjóðlög auk þess að læra framburð orðanna í textunum.

- Auglýsing -

Tónlist spilaði stóran þátt á uppvaxtarárunum og segir Janice að það hafi verið mikilvægt fyrir foreldra hennar að þau systkinin væru í Íslenska barnakórnum sem fjallkona ársins 2021, Anna Stevens, stjórnaði. „Við lærðum íslensk þjóðlög auk þess að læra framburð orðanna í textunum. Við komum reglulega fram á íslenskum hátíðisdögum eins og á sumardaginn fyrsta. Mörgum árum síðar stjórnaði ég Íslenska barnakórnum þegar haldið var upp á aldarafmæli Íslendingadagsins og það var yndislegt að geta kennt dætrum mínum og frænkum þessi íslensku þjóðlög sem urðu þekktar sem Valkyrjurnar og komu þær fram á mörgum menningarhátíðum á svæðinu og í Norður-Dakóta.“

Rætur barnanna okkar þriggja – Signýjar, Heiðu og Stefans – eru alíslenskar.

Í föðurætt voru forfeður eiginmanns Janice, Cameron, frá Villingadal í Eyjafirði og Tjörn og nefnir hún Arngrím málara. Í móðurætt voru þeir frá Akureyri. „Rætur barnanna okkar þriggja – Signýjar, Heiðu og Stefans – eru alíslenskar.“

Janice Arnason
Janice og dætur hennar á Íslendingadeginum á sínum tíma.

Janice og Cameron voru á sínum tíma forsetar Íslendingadagsins og buðu þá íslensk stjórnvöld þeim um að vera gestir á 17. júní hátíðarhöldunum í Reykjavík auk þess sem þeim var boðið á Vesturfarasetrið á Hofsósi.

- Auglýsing -

Janice Arnason

„Við fengum konunglegar viðtökur og erum svo þakklát fyrir þetta frábæra tækifæri og fá að heimsækja staðina þar sem forfeður okkar bjuggu. Við ákváðum að framlengja dvöl okkar um 10 daga og á þeim tíma hittum við marga ættingja okkar í Reykjavík og Akureyri og mættum mikilli gestrisni. Við erum í sambandi við margt af þessu fólki og vonumst til að hitta það aftur. Hápunktur ferðarinnar var að heimsækja bæinn þar sem langafi Cameron, Jóhann Árnason, bjó en hann hafði yfirgefið heimili sitt í Eyjafirði til að flytja til Kanada.“

Janice fór svo aftur til Íslands fyrir nokkrum árum þegar frænka hennar, Dilla Sigurlína Narfason, ákvað að fara til Íslands til að heimsækja ættingja. Um 10 fjölskyldumeðlimir slógust í förina. Dilla sá um allt skipulag svo sem hvert yrði farið og hvaða ættingja ætti að heimsækja. „Það var stórkostlegt fyrir mig að kynnast sögu forfeðra okkar.“

Janice Arnason
(Mynd: The Icelandic Festival of Manitoba; „Islendingadagurinn“.)

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -