Fimmtudagur 16. janúar, 2025
4.9 C
Reykjavik

Jarðamógullinn fyrir austan flytur til Mónakó

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jim Ratcliffe, auðkýfingurinn sem keypt hefur fjölda jarða á Austurlandi, ætlar að flytja frá Bretlandi til Mónakó sem gerir honum kleyft að spara andvirði hundruð milljarða króna í skattgreiðslur. Þetta útspil hans hefur verið harðlega gagnrýnt í ljósi þess að hann var einn helsti stuðningsmaður þess að Bretland gengi úr Evrópusambandinu.

The Sunday Times greindi frá því á dögunum að Ratcliffe, stofnandi efnavinnslufyrirtækisins Ineos og ríkasti maður Bretlands, hafi í samráði við endurskoðunarfyrirtækið PricewaterhouseCoopers (PwC) á undanförnum mánuðum undirbúið flutning hans og Ineos til Mónakó. Slíkur flutningur gæti sparað Ratcliffe og Ineos, sem metið er á 35 milljarða punda, marga milljarða í skattgreiðslur af alþjóðlegum tekjum fyrirtækisins. Tveir stórir hluthafar í Ineos, Andy Currie og John Reece, sem hvor um sig á 20 prósenta hlut gegn 60 prósenta hlut Ratcliffes, eru einnig sagðir ætla að flytjast til Mónakó. Samkvæmt breskum fjölmiðlum munu þessir þrír einstaklingar spara sér andvirði að minnsta kosti 68 milljörðum króna í greiðslur til hins opinbera með flutningnum.

Þessi vending þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart í ljósi sögunnar, því árið 2010 flutti Ratcliffe höfuðstöðvar Ineos til Sviss eftir deilur við skattayfirvöld. Margir hafa stigið fram og gagnrýnt þessar fyrirætlanir því áætlað heildartap breskra skattayfirvalda hleypur á milljörðum punda. „Ég er furðu lostinn því þetta er einn hinna ofur-ríku. Við erum ekki að tala um einhvern sem er á vonarvöl. Fyrir hvert penný sem foraðað er undan skatti, hvað þýðir það? Það þýðir í raun að NHS [breska heilbrigðisstofnunin] getur ekki sinnt sjúklingum sínum eins vel og hægt er, að börnin okkar njóta ekki fullrar fjárfestingar í menntun og það þýðir minna öryggi fyrir okkur hin á götum úti,“ segir John McDonnell, þingmaður Verkamannaflokksins.

Reiði fólks hefur einnig beinst að PricewaterhouseCoopers sem hannað hefur umrædda skattaundanskotaáætlun. Árið 2017 greiddi Ineos 5,1 milljón punda til PwC og 5,8 milljónir punda árið þar áður. Stór hluti þess var fyrir skattaráðgjöf. Samkæmt Sunday Times mun það hafa komið til tals innan PwC að áætlun Ratcliffe gæti skaðað orðspor fyrirtækisins og íhugaði fyrirtækið að ganga frá borði, en talsmaður fyrirtækisins hefur hafnað því.

Hefur keypt á fimmta tug jarða

Jim Ratcliffe hefur keypt á fimmta tug jarða á Norðausturlandi undanfarin ár, meðal annars í Vopnafirði, Þistilfirði og Grímsstaði á Fjöllum. Í gegnum fjárfestingar sínar hefur hann fengið yfirráð á nokkrum af gjöfulustu laxveiðiám landsins auk annarra réttinda sem fylgja jörðunum. Skiptar skoðanir eru um fyrirætlanir auðkýfingsins. Sumir leggja trú á orð auðkýfingsins um að hann vilji vernda og byggja upp laxveiðiár á meðan aðrir gruna að eitthvað annað og stærra búi að baki.

Uggandi íbúar vilja sundlaug

- Auglýsing -

Í Vopnafirði og nágrenni, þar sem Ratcliffe hefur verið hvað ötulastur í jarðakaupum, hafa komið upp kröfur um að auðkýfingur leggi eitthvað til samfélagsins enda jarðirnar í eigu hlutafélaga sem eingöngu greiða fasteignaskatta en ekkert útsvar. Flest félögin eru skrásett í Lúxemborg. Til að mynda hafa íbúar lagt til að Ratcliffe gefi sveitarfélaginu sundlaug enda engin slík til staðar í Vopnafjarðarhreppi.

Talsmenn Brexit flýja Bretland

Flutningur Ratcliffes til Mónakó þykir ekki síst kaldhæðnislegur í ljósi þess að hann var einn helstu stuðningsmanna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Þarna er Ratcliffe reyndar ekki einn á báti því margir úr hópi þeirra iðnjöfra sem töluðu mjög fyrir Brexit hafa látið sig hverfa frá Bretlandi eftir að niðurstaðan varð ljós. James Dyson flutti höfuðstöðvar síns fyrirtækis til Singapúr, Nigel Lawson sem var formaður Vote Leave hópsins sótti um dvalarleyfi í Frakklandi og fjárfestingastjóður Jacobs Rees-Mogg, sem er einn harðasti talsmaður Íhaldsflokksins í Brexit-málum, opnaði starfsstöð í Dublin.

- Auglýsing -

Í fararbroddi mengandi iðanaðar

Efnavinnslufyrirtæki Ratcliffes, Ineos, hefur verið í fararbroddi þeirra sem þrýsta á ríkisstjórn Bretlands um að afnema álögur sem lagðar hafa verið mengandi iðnað í því skyni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Að sama skapi hefur Ratcliffe haft uppi stórhuga hugmyndir um bergbrot (e.fracking) til vinnslu jarðefnaeldsneytis í Bretlandi. Þær áætlanir hafa ekki gengið eftir, meðal annars vegna strangra reglna um bergbrot. Ratcliffe hefur barist hart fyrir því að þær reglur verði rýmkaðar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -