Jarðskjálfti að stærð 7,3 á Richter varð skammt undan ströndum Fukushima í Japan kl. 15:11 í dag. Gefin hefur verið út fljóðbylgjuviðvörun.
Samkvæmt frétt ABC fréttastofunnar fannst skjálftinn vel í höfuðborg Japan, Tókíó, en fljóðbylgjuviðvörun hefur verið gefin út og talið er að bylgjan geti náð allt að einum metra á hæð.
Um þessar mundir eru liðin 11 ár frá jarðskjálftanum og fljóðbylgjunni í Fukushima í Japan þar sem fjöldi fólks lét lífið en skjálftinn var 9.0 á stærð. Þá urðu gríðarlegar skemmdir á kjarnorkuverum Fukushima.
Enn sem komið er hafa ekki borist fréttir af mannfalli eða skemmdum en samkvæmt Reuters fréttastofunni sló rafmagni út í hluta Tókíó borgar. Forsætisráðherra landsins segir að nú standi yfir vinna við að meta skemmdir.