Jarðskjálftinn sem varð í morgun norðaustur af Grindavík að stærð 5,2, er einn sá stærsti á Reykjanesskaga frá upphafi mælinga. Talsvert af eftirskjálftum fylgdu í kjölfarið.
Fyrstu fregnir og upplýsingar á heimasíðu Veðurstofu Íslands, vedur.is, sögðu skjálftann 4,0 að stærð, síðan hækkaði stærðin í 4,6 og jafnvel meira, en eftir endurmat á skjálftanum var staðfest að hann var 5,2 að stærð.
Árið 1973 í september varð skjálfti að stærð 5,3 á svipuðu svæði og árið 2013 var skjálfti að stærð 5,2 á Reykjanestá.
Á heimasíðu Veðurstofunnar segir að ekkert landris mælist lengur og líklegasta skýringin sé að kvikuinnflæði sé lokið í bili. Óvissustig Almannavarna er enn í gildi.