Mánudagur 23. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Jasmina er þreytt á rasískum skilaboðum: „Var sagt að ég væri að ala upp Breivik heima hjá mér“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðtogi alþjóðateymis velferðarsviðs Reykjavíkurborgar hefur í gegnum árin orðið fyrir fordómum á samfélagsmiðlum en hún er fædd í Bosníu og Hersegóvínu.

Jasmina Vajzović Crnac kom til landsins 16 ára gömul sem flóttamaður frá Bosníu og Hersegóvínu en hún upplifði stríðsátök í Bosníustríðinu á tíunda áratug síðustu aldrar. Á þessu ári var hún ráðin sem leiðtogi alþjóðateymis velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og hefur hún meðal annars verið að hjálpa Úkraínskum flóttamönnum sem hingað flýja vegna stríðsins sem þar geisar nú um mundir. Hún hefur um langt skeið hjálpað flóttafólki sem hingað hefur flúið og kennt þeim á kerfið og fleira sem nauðsynlegt er að kunna til að geta sest að í nýju landi. Hún hefur sem sagt mikla reynslu í þessum málum.

Alltaf til rotin epli

Þó að langflestir séu hæstánægðir með hennar störf og skoðanir í þessum málaflokki eru alltaf einhverjir sem eru það ekki og senda henni fordómafullt og ljót skilaboð. „Ég hef verið nokkuð áberandi síðustu ár í umræðunni um flóttafólk, sem innflytjandi sjálf og mér er mjög annt um öll þessi mál og hef alveg tekið mitt pláss í fjölmiðlum í þessum málaflokki. Þá hef ég alltaf fengið skilaboð frá skemmdum eplum. Til dæmis þegar stríðið í Sýrlandi stóð sem hæst, þá var mikið verið að tala um múslima og þar sem ég er Bosníumúslimi þá fékk ég skilaboð þegar ég var að tjá mig um stríðið, þar sem var sagt að ég væri að ala upp Breivik heima hjá mér, að ég væri að ala börnin mín upp sem Breivik. Mér hefur líka verið sagt að drulla mér heim, að ég sé ekki velkomin á Íslandi. Það gerist nánast alltaf þegar ég er með aðrar skoðanir en sumir Íslendingar og tjái mig um það, að þá fæ ég skilaboð þar sem mér er sagt að fara bara heim til mín. En ég segir bara að ég sé heima hjá mér, ég geti ekkert farið heim því ég er þar nú þegar.“

Jasmina segir að sér finnist þetta áhugavert og að hún velti því fyrir sér hvað fólki fái eiginlega út úr þessu. „Það að fólk þurfi endilega að senda mér skilaboð og tjá mér sínar skoðanir á mér og mínum málefnum án þess að vita og skilja hvað ég er að tala um, að senda mér skilaboð á Messenger til dæmis, ég skil ekki tilganginn með þessu. Ég þekki þau ekki neitt og þau vita ekkert hvað ég hef verið að skrifa um og tala fyrir.“

Aðspurð hvort um sé að ræða alltaf sama fólkið segir Jasmina svo ekki vera. Þetta séu mismunandi einstaklingar en stundum fái hún það á tilfinningunni að um gervipersónur séu að ræða, þ.e.a.s. að fólk sé að skrifa undir dulnefni, gervi aðgangi á Facebook.

- Auglýsing -

Óþolinmæði gagnvart skoðunum innflytjenda

Jasmina segir að þetta fari lítið fyrir brjóstið á henni en að hún sé orðin frekar þreytt á þessu. „Það virðist vera svo lítil þolinmæði fyrir því að fólk af erlendum uppruna sé að hafa skoðanir á hlutunum og ef það hefur skoðanir að þá eru það ekki réttu skoðanirnar,“ segir Jasmina en tekur fram að hún sé ekki bara að tala um sjálfa sig því margir fái enn grófari skilaboð en hún og það er sett út á stafsetningu viðkomandi og farið í persónuna, frekar en málefnin. „Ég er aðallega að tala um þetta núna því ég veit að vinir mínir hafa verið að fá ógeðslegustu skilaboðin, ég er að fá mun vægari skilaboð og kippi mér lítið upp við það. Ég á vini sem eru dökkir á hörund og hafa verið að kvarta undan þessu en fá ekki sömu umfjöllun og ég. Þess vegna finnst mér mikilvægt að tala almennt um þetta, að það virðist vera fólk í samfélaginu sem hefur minni þolinmæði gagnvart fólki af erlendum uppruna sem er að tjá sig á opinberum vettvangi. Ef við ætlum að búa til fjölmenningarsamfélag þar sem allir fái að vera með, þá þarf að vera hægt að taka gagnrýni um eitthvað sem betur má fara, svo að samfélagið verði betra fyrir okkur öll. Ég held að við á Íslandi þurfum að geta tekið umræðuna án þess að einhver móðgist þó einhver hafi öðruvísi skoðun en aðrir og að við þurfum ekki alltaf að skipta okkur í dilka, eins og það sé aðalatriðið. Við þurfum bara að stefna á það að búa til betra samfélag.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -