Jóhann Sigurður Jóhannsson, liðsmaður Gagnamagsins, er í áfalli yfir að hafa greinst með kórónuveiruna snemma í morgun. Rétt í þessu opnaði hann sig klökkur í story á Instagram hjá Gagnamagninu.
Jóhann er niðurbrotinn yfir því að vera smitaður. Hann segist þó vera við góða heilsu og að það hafi komið honum á óvart að hann hafi reynst smitaður.
„Hæ. Þið hafið eflaust frétt það núna að einn meðlimur Gagnamagnsins greindist með Covid. Sá meðlimur er ég. Ég er í áfalli. Og almennt bara mjög leiður yfir öllu þessu. Ég er við góða heilsu, sem er gott,“ sagði Jóhann klökkur og bætti við:
„Þetta er erfitt því við lögðum svo mikið á okkur. Og þetta hefur tekið svo langan tíma. Við erum mjög stolt af upptökunni okkar. Hún gekk mjög vel og ég vona að við munum gera íslensku þjóðina stolta.“
„Ég er enn að melta þetta, þetta er stór biti að kyngja. Ég gerði allt sem í mínu valdi stóð til að smitast ekki en það er eitthvað sem hefur farið úrskeiðis, ég veit ekki hvað það var.“
Skömmu áður en Jóhann opnaði sig lýsti Daði Freyr Pétursson yfir vonbrigðum sínum með Covid-smitið og þá staðreynd að geta nú ólíklega fengið að stíga á svið í Rotterdam.
„Við höfum farið alveg ótrúlega varlega og því eru þetta hrikaleg vonbrigði. Við erum hins vegar ánægð með frammistöðuna og svakalega spennt yfir því að þið fáið að sjá. Takk öllsömul fyrir alla ástina,“ segir Daði Freyr.